Haukar unnu Njarðvík í kvöld 98-84 í 8-liða úrslitum Powerade-bikars karla og eru því komnir í undanúrslit. Er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2000 sem Haukar fara í undanúrslit í bikarnum en þá töpuðu Haukar fyrir Grindavík 67-68. Haukar hafa nú unnið fimm leiki í röð í öllum keppnum og eru á alvöru skriði.
Stemningin var fín á Ásvöllum í kvöld þegar grænir komu í heimsókn og voru heimamenn með sannkallaða flugeldasýningu sem gestirnir áttu fá svör við.
Semaj Inge var frábær í liði Hauka en hann náði ótrúlega flottri þrennu en hann skoraði 18 stig, tók 14 fráköst og gaf 14 stoðsendingar. Hann stal einnig þremur boltum og varði tvö skot og endaði með 39 í framlag sem er sannarlega magnað.
En þrátt fyrir stórleik Semaj Inge var það frábær liðsheild sem skóp þennan sigur. Afmælisbarnið Haukur Óskarsson átti einnig magnaðan leik en drengurinn sem varð tvítugur í dag skoraði 18 stig og var driffjöðurinn í sóknarleiknum í seinni hálfleik ásamt Semaj Inge og Gerald Robinson. En Robinson var stigahæstur með 27 stig.
Sveinn Ómar Sveinsson spilaði einnig mjög vel og var með 15 stig en hann var frábær í vörninni og þessi knái framherji létu stóru strákana í Njarðvík hafa fyrir hlutunum.
Sævar Ingi Haraldsson kom inn af bekknum og skoraði 16 stig.
Njarðvíkingar skoruðu 27 stig í fyrsta leikhluta og voru betri aðilinn en í næstu þremur leikhlutum voru Haukar sterkari og betri á öllum sviðum leiksins.
Sannarlega frábært kvöld á Ásvöllum og nú verður spennandi að sjá hverja Haukar fá í undanúrslitum en KR og Tindastóll tryggðu sér sæti í dag í undanúrslitum. Á morgun er lokaleikur 8-liða úrslitanna þegar Laugdælir heimsækja Grindvíkinga.
Umfjöllun um leikinn á Karfan.is
Myndasafn úr leiknum á Karfan.is