Viðureignir Hauka og Grindavíkur í vetur hafa verið magnaðar ef svo má að orði komast en fyrsti leikur liðanna var í Lengjubikarnum og sigruðu Grindvíkingar þann leik með einu stigi. Næsti leikur liðanna unnu Grindvíkingar einnig, það í deild og á Ásvöllum. Unnu gulir þann leik með 16 stigum og voru sjóð heitir. Það fór svo ekki fram hjá neinum þegar að Haukar gerðu góða ferð suður með sjó og unnu 19 stiga sigur í Röstinni í seinni deildarleik liðanna og því vonlaust að spá fyrir um hvernig leikurinn mun þróast svona fyrir fram.
Við heyrðum í nokkrum fyrri leikmönnum Haukaliðsins til að fá þeirra mat á leikinn á sunnudaginn en þetta eru kapparnir Henning Henningsson, Jón Arnar Ingvarsson og Reynir Kristjánsson sem allir spá Haukasigri.
Henning Henningsson:
Ég hef fulla trú á strákunum. Þeir þurfa að setja sig í þann gír að eiga möguleika á að upplifa draum allra íslenskra körfuknattleiksmanna, en það er að spila til úrslita um bikarinn í höllinni. Ef þeir trúa á sjálfan sig og eigin getu þá mun draumurinn rætast. Þeir hafa spilað vel upp á síðkastið og trúi því að þeir taki þennan leik með samstilltu átaki leikmanna og áhorfenda. Ég spái 81-77 sigri okkar manna.
Haukar í höllina.
Jón Arnar Ingvarsson:
Grindavík byrjaði tímabilið vel en hefur gefið mikið eftir í síðustu leikjum. Leikur Hauka hefur hins vegar verið vaxandi og sannfærandi sigur í Grindavík gefur þeim sjálfstraust. Reynsla í stórleikjum er hins vegar mjög mikil hjá Grindavík en nálægt núllinu hjá Haukum. Við trúum því hins vegar að gæðin beri reynsluna ofurliði. Haukasigur 73:70.
Reynir Kristjánsson:
Haukar hafa verið að spila mjög vel undanfarið og unnið bæði Grindavík á útivelli og Fjölni heima, mjög sannfærandi. En þó að Grindavík hafi átt erfitt uppdráttar í síðustu tveimur leikjum, þá skrifast það kannski að einhverju leiti á vöntun á góðum leikstjórnanda, sem þeir hafa nú bætt úr með nýjum Kana. En Grindavík er mjög gott stemmingslið og hefur oft farið langt í bikar, því verður þetta mikill barráttuleikur og úrslitin ráðast ekki fyrr en á lokamínútunum. En Haukar eru með góða blöndu af leikmönnum í öllum stöðum og frábært að sjá hvað ungu drengirnir eru orðnir góðir. Síðast þegar Haukar urðu bikarmeistarar vann liðið bæði Njarðvík og Grindavík á leið í Höllina. Okkur tókst að sigra Njarðvík í síðustu umferð og nú er bara að endurtaka leikinn og sigra Grindavík líka.
Haukar 79 – Grindavík 76
Ég vona að það verði frábær mæting og góður andi í pöllunum, þá tökum við þennan leik.
Áfram HAUKAR !