Baráttan á eftir að halda 100% út leikinn

Haukur Óskarsson til vinstri, Emil Barja til hægriÞað vakti athygli margra fyrr í vetur þegar Pétur Ingvarsson, þjálfari meistaraflokks karla, skellti tveimur ungum og efnilegum pjökkum í byrjunarlið Haukaliðsins þegar aðalbakvörður liðsins, Sævar Ingi Haraldsson, brá sér í frí. Það má með sanni segja að þessir tveir hafi svarað kallinu því frammistaða þeirra á dansgólfinu hefur verið hreint út sagt til fyrirmyndar.

Hér er að sjálfsögðu átt við þá Hauk Óskarsson og Emil Barja. Þessir 19 ára drengir hafa sýnt það að þeir séu framtíðin hjá Haukaliðinu og er Emil orðinn aðal bakvörður liðsins og sent Óskar Inga Magnússon og Sævar Inga Haraldsson á tréverkið. Það er ekki ónýtt að eiga leikmenn á borð við Óskar og Sævar á bekknum og breidd Haukaliðsins því orðinn meiri en ráð gerðu fyrir.

 

Leikmennirnir tveir eru gjörólíkir og engin leið að bera þá saman. Emil er 192 cm bakvörður og einkennist leikur hans af vörn. Hann gefur lítið eftir og berst um hvern einasta bolta. Til að mynda tók Emil í síðustu tveimur leikjum 19 fráköst og gaf 13 stoðsendingar en skoraði samtals 11 stig.

Haukur er mikill sóknarleikmaður og baneitraður fyrir utan þriggja stiga línuna. Haukur er 194 cm og spilar stöðu lítils framherja. Hann gerði sér lítið fyrir og smellti niður einum sex þriggja stiga körfum gegn Fjölni á fimmtudaginn og skoraði alls 21 stig í leiknum. Í síðustu tveimur leikjum hefur Haukur skorað 32 stig og tekið 11 fráköst.

Við hittum þessa hressu drengi og er greinilegt að hvorugur þeirra bjóst við að vera kastað í djúpu laugina ef svo má að orði komast þegar Pétur ákvað að setja þá í byrjunarlið Hauka á sama tíma. Þrátt fyrir að öðrum þeirra vissi að tækifærið kæmi fljótlega.

Emil
: „Nei ég bjóst eiginlega ekki við þessu. Ég var frekar „heppinn“ að Sævar er búinn að vera slæmur í baki síðan um áramót og svo fór hann í frí í nokkrar vikur í desember þannig ég fékk tækifæri og ég er bara búin að nota það eins vel og ég get.“

Haukur: „Já það var allavega markmiðið hjá mér að komast í byrjunarliðið og ég vissi að einhvern tímann myndi Pétur gefa mér tækifæri sem og hann gerði og ég nýtti mér það.“

Strákunum finnst báðum að liðið sé að spila framar væntingum en vissu strax að það bjó meira í liðinu en spár gerðu ráð fyrir.

E: „Fyrir tímabilið bjóst ég við að við myndum vera að spila um fallbaráttuna en strax eftir fyrstu leikina sá ég hvað við erum miklu betri en það og eigum alveg heima í efri hluta deildarinnar.“

H:  Það kom mér verulega á óvart hvað okkur var spáð neðarlega í deildinni í byrjun tímabilsins. Ég veit ekki hvort þetta sé orðinn vani að menn spái liðunum sem voru að koma upp um deild fallsæti en persónulega finnst mér þessi árangur ekkert koma á óvart. Þó við stefnum ekki á neitt ákveðið sæti þá held ég að við séum allir sammála um það að komast sem lengst í bæði bikarnum og deildinni og við höfum allir bullandi trú á því.“

Það vill oft verða hjá ungu og óreyndu liði að taugarnar halda ekki þegar spilaðir eru svona stórir leikir. Því lág beinast við að spyrja þá hvort að taugar Haukaliðsins munu halda út leikinn á morgun.

E: „Já ég hef fulla trú á að við munum vinna þennan leik. Við erum búnir að keppa við þá tvisvar í deildinni í vetur þannig við þekkjum þetta lið, þótt þetta sé bikarleikur þá eru sömu menn að mæta í þennan leik og í fyrri leikjum við þetta lið. Við þurfum bara að mæta tilbúnir í leikinn, með fullt sjálfstraust og troðfulla stúku og þá vinnum við þennan leik.“

H:  Ég pæli ekkert í því hvort Grindavík hafi yfirleitt náð langt eða yfirleitt komist í úrslit, það er bara leikurinn á sunnudaginn sem ég pæli í en ekki hversu langt þeir hafa yfirleitt náð og það á ekki eftir að hafa áhrif á mig. Ég er allavega á því að taugarnar verði í lagi því við erum það gott lið og með það góðan liðsanda að við eigum eftir að gera þetta saman og gera það vel. Það er eitt sem á 100% eftir að halda út þennan leik og það er baráttan hjá okkur

En hvernig fer svo leikurinn?

E: „Haukasigur, 89-85, en hann verður jafn allan tímann.“

H: „Þetta verður spennandi og skemmtilegur leikur og hann á eftir að enda með að við vinnum með 10 stigum. Svo hvet ég alla til að mæta og hjálpa okkur í baráttunni, það eru ekki nema ellefu ár síðan Haukar spiluðu seinast í undanúrslitum um bikarinn!!.“