Pétur: Ætlum að njóta þess að vera í þessum sporum

„Við erum staðráðnir í því að koma fram hefndum fyrir Ívar [Ásgrímsson] og Gumma [Guðmund Bragason] vegna undanúrslitanna árið 2000,“ sagði Pétur Ingvarsson þegar síðan heyrði í honum fyrir leikinn í kvöld og glotti við tönn. Guðmundur Bragason var í liði Hauka árið 2000 og er í dag aðstoðarþjálfari Grindvíkinga.

Pétur vildi ekkert gera of mikið úr leiknum eða koma með einhverjar yfirlýsingar heldur sagði að Haukastrákar ætluðu einfaldlega að njóta þess að vera í þessum sporum og gera það sem þeir kunna best, að spila körfubolta.

„Við erum með svona frekar reynslulítið lið og þetta verður bara reynsla fyrir liðið að spila alvöru úrslitaleik. Þó að þetta séu undanúrslit þá er þetta fyrsti alvöru leikurinn fyrir alla í liðinu og við munum bara njóta þess að vera í þessum sporum.“

Eins og fram hefur komið þá er Sævar Ingi Haraldsson meiddur og óvíst hvort að hann spili meira með liðinu á þessari leiktíð. Pétur viðurkenndi að það væri slæmt að hafa pjakkinn ekki með í leiknum í kvöld.

„Sævar er reynslumikill leikmaður og okkur mikilvægur. Það er bara slæmt að hafa ekki Sævar í svona leik en ég hef fulla trú á því að liðið haldi bara áfram á þeirri braut sem þeir hafa verið á,“ sagði Pétur að lokum og hvatti alla til að koma á völlinn í kvöld.

„Það eru 11 ár síðan Haukar voru á svipuðum stað í bikarnum og í fyrsta skipti sem að liðið spilar til undanúrslita í bikarkeppni á Ásvöllum og því væri gott að fá fullt hús af fólki og stuðning úr stúkunni,“ bætti Pétur við.

Leikurinn hefst kl. 19:15 í kvöld og fírað verður upp í grillinu kl. 18:00 þar sem hægt verður að fá sér borgara og Sbarro pizzur.

ÁFRAM HAUKAR