Silfur hjá Haukastrákum eftir hörkuleik

Elli Jónasar ásamt silfurdrengjunum úr 5. flokkiEldra ár 5. flokks karla í handbolta lék sitt 5. og síðasta mót í vetur nú um helgina. Eins og á öðrum mótum vetrarins stóðu strákarnir sig með prýði og vantaði bara hársbreidd upp á að þeir ynnu mótið en þeir töpuðu fyrir Íslandsmeisturum Selfoss í æsispennandi leik þar sem Selfoss skoraði úr hraðaupphlaupi á síðustu sekúndu eftir að gott skot frá Haukum hafði verið varið nokkrum sekúndum áður. Selfoss vann mótið með fullu húsi stiga en Haukar urðu í öðru sæti eftir að hafa unnið alla aðra leiki sína. 

Selfoss varð jafnframt Íslandsmeistari með bestan samanlagðan árangur í vetur, en Haukastrákarnir urðu í öðru sæti, en þeir lentu í öðru sæti á 3 mótum, í þriðja sæti á einu og einu sinni í fjórða sæti. Þeir hafa barist hatrammlega við Selfoss í allan vetur, unnið þá einu sinni, gert eitt jafntefli, tveir leikir hafa tapast með einu marki og einn stærra. Þetta er gríðarleg framför hjá okkar strákum, en þegar þeir voru á eldra ári í 6. flokki enduðu þeir veturinn í 4. deild. Á yngra ári í fimmta flokki unnu þeir sig hratt og örugglega upp í fyrstu deild og enduðu með því að verða í 4. sæti Íslandsmótsins. Í vetur hafa þeir svo haldið áfram að bæta sig jafnt og þétt og uppskeran er annað sæti á Íslandsmótinu. Þetta er afrakstur mikillar vinnu, margra aukaæfinga undir handleiðslu snillingsins Ella Jónasar sem hefur verið óþreytandi í að fá æfingaleiki og sníkja alla lausa tíma sem hafa fengist í húsunum undir aukaæfingar. Hópurinn hjá Ella er mjög stór og voru Haukar eitt liða með 4 lið í öllum mótum. B-liðið náði líka mjög athyglisverðum árangri en það komst upp í aðra deild, eina B-liðið sem náði þeim árangri og var yfirleitt að spila við A-lið annarra félaga. 

Í þessum flokki er frábær efniviður og margir stórefnilegir strákar sem án efa eiga eftir  að bæta í bikarasafnið á Ásvöllum á komandi árum.

Með góðri kveðju,
Reynir Jóhannsson