Víkingur Ó. – Haukar á laugardaginn

HaukarFyrsti deildarleikur Hauka í 1.deildinni í sumar fer fram á laugardaginn, næstkomandi þegar Haukar heimsækja Víking ríkjandi 2.deildarmeistarana frá Ólafsvík. Leikurinn hefst klukkan 16:00 á Ólafsvíkurvelli.

Við fengum álit Ásgeirs Þórs Ingólfssonar, leikmann meistaraflokks Hauka um komandi tímabil en Ásgeir hefur verið í meistaraflokksliði Hauka síðustu fjögur ár og er hann því að hefja sitt fimmta meistaraflokks tímabil þó ungur sé.

Nú er tímabilið að hefjast, hvernig er tilfinningin að fyrir því að vera fara spila í 1.deildinni að nýju?

Tilfinningin er ágæt að spila í 1.deildinni aftur. Það er auðvitað síðra en að spila í hópi þeirra bestu en það þýðir ekkert að tala um það. Við mætum með blóðbragð í munninum eftir gott gengi í restina á síðasta tímabili og erum staðráðnir að halda þeim dampi áfram.

Hafi þið ekki saknað þess að spila á gervigrasinu á Ásvöllum? Eða munu þið kannski frekar sakna þess að spila á Vodafone-vellinum sem var ykkar heimavöllur í fyrra?

Það er alltaf best að vera á Ásvöllum. Þetta er heimili okkar allra sem við sækjum á hverjum degi svo það er gott að spila þar, varðandi Vodafone-völlinn þar sem Valsarar voru svo frábærir að leyfa okkur að spila á, saknar maður mest að spila á grasi við frábærar aðstæður, en gervigrasið er það í sumar hjá okkur og við erum tilbúnir í það.

Hvernig lítur þú á möguleika Hauka á þessu tímabili, er raunhæft markmið að stefna á að fara strax aftur upp?

Ég lít góðum augum á möguleika okkar í 1.deildinni í sumar. Auðvitað misstum við nokkra frábæra leikmenn en það hafa aðrir yngri leikmenn sem og leikmenn sem við höfum fengið fyllt í þeirra skarð. Við höfum sett okkur markmið sem við höfum út á fyrir okkur, auðvitað stefna alltaf liðin sem fara niður að fara beint aftur upp en það verður að koma í ljós.

Hvernig telur þú að deildin eigi eftir að spilast, hvaða lið munu vera að berjast á toppnum og hvaða lið eiga eftir að berjast um það að sleppa við fall?

Þessi deild er svo rosalega stórt spurningamerki, hún hefur líklega aldrei verið jafn sterk og í sumar. Það er ekkert lið sem er lélegt og öll liðin hafa verið að bæta við sig mörgum leikmönnum sem maður veit ekkert um. En ef ég ætti að giska á þá væri í efri hlutanum: Haukar, Fjölnir, Selfoss og Leiknir. í neðri hlutanum væri síðan : Víkingur Ó., Þróttur R. og BÍ/Bolungarvík.

Hvernig hafa þjálfara skiptin haft áhrif á hópinn?

Þjálfaraskiptin hafa farið mjög vel í okkur leikmennina, Andri Marteinsson hafði auðvitað gert frábæra hluti með okkur og náð að kreysta allt sem hann gat úr okkur og því var þetta góður tímapunktur að fá mann eins og Magnús Gylfason til að taka við okkur. Hann veit alveg hvað við þurfum að gera til þess að vinna leiki og hefur verið frábær í þennan tíma sem hann hefur verið með okkur og á eftir að reynast okkur vel í sumar.

Við hverju má Haukastuðningsmaður búast við af liðinu í sumar?

Ég vona innilega að Haukafólk haldi áfram að mæta og styðja okkur í sumar, stuðningsmenn okkar voru frábærir síðasta sumar. En stuðningsmenn okkar mega búast við flottum fótbolta, með góðu spili og munu aldrei þurfa að sjá uppgjöf í leik hjá okkur. Þeir mega einnig búast við því að við fáum fá eða jafnvel engin mörk á okkur úr föstum leikatriðum og í leiðinni sjá okkur skora þónokkur úr föstum leikatriðum. 

 

Við hvetjum Haukafólk til að fjölmenna á alla leiki Hauka í sumar og hver veit nema að lokum munu Haukar sitja í tveimur efstu sætum 1.deildar og búnir að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni aftur að ári.