Hilmar Geir mætir á Ásvellina

HaukarDregið var í 16-liða úrslit Valitors-bikarsins í hádeginu í dag og þar voru Haukar á meðal liða í pottinum. Það fór svo að Haukar og Keflavík drógust gegn hvort öðru og fer leikurinn fram á gervigrasinu á Ásvöllum.

Leikirnir fara fram 19. og 20.júní næstkomandi. Það er því ljóst að Haukarinn, Hilmar Geir Eiðsson mun koma heim á Ásvellina og leika við sína fyrrum liðsfélaga en Hilmar Geir skipti yfir í Keflavík nú rétt eftir áramót.

Við fengum álit fyrirliðans, Hilmars Trausta Arnarssonar á þessum drætti en hann var einmitt í herbúðum Keflavíkur í nokkra mánuði tímabilið 2008.

 

,,Það voru auðvitað yfirgnæfandi líkur á að fá úrvalsdeildarlið. Draumurinn var að fá FH eða KR en Keflavík er líka fínn kostur. Okkur hef gengið vel á móti Keflavík síðastliðin ár sama hvort litið er á deildarleiki eða æfingaleiki svo ég tel okkur eiga ágætis möguleika á að stríða þeim allavegana.“

 

,,Við munum allavegana koma alveg pressulausir inn í þennan leik og njóta þess að spila fótbolta vonandi fyrir framan fulla stúku. Svo er auðvitað gaman að fá að mæta Geirfuglinum (Hilmari Geir Eiðssyni), hann hefur verið að standa sig vel hingað til þarna suður með sjó en ég er ansi hræddur um að honum verði skipt útaf í hálfleik á móti okkur ef ekki fyrr. Þetta verður eflaust hörkuleikur,“ sagði Hilmar Trausti sem vill hvetja alla Haukara til að fjölmenna í Breiðholtið á morgun, en þá mætast Haukar og ÍR í 1.deild karla á ÍR-vellinum en leikurinn hefst klukkan 14:00