Nýverið skrifaði handknattleiksdeild Hauka undir samning við Matthías Árna Ingimarsson. Matthías er uppalinn Haukamaður en árið 2005 flutti hann út til Suður-Kaliforníu til náms í blaðaljósmyndun. Þar dvaldi hann í 3 ár og eftir að hann kláraði skólann flutti Matthías til Danmerkur þar sem hann var við vinnu og spilaði einnig handbolta með Íslendingaliðinu IF Guðrúnu. Vorið 2009 ákvað Matthías að flytja aftur til Íslands og hefja meistaranám í blaða – og fréttamennsku við HÍ en hann hefur meðal annars unnið sem sjálfstætt starfandi blaðamaður og ljósmyndari hjá Morgunblaðinu. Þegar Matthías flutti heim fékk Halldór Ingólfsson hann til liðs við Gróttu með sér en þar hitti hann fyrir „gamla“ Haukamenn eins og Magga Sigmunds og Jón Karl. Þessi fyrst vetur hjá Gróttu kveikti aftur áhugann hjá Matthíasi til að fara aftur að spila af alvöru. Matthías var tvo vetur hjá Gróttu en hefur nú aftur gengið til liðs við Hauka. Haukahjartað slær extra fast í Matthíasi enda alinn upp í Haukum og foreldrar hans bæði fyrrverandi leikmenn Hauka.
Við bjóðum Matthías velkominn aftur heim og vonum að honum eigi eftir að farnast vel á komandi misserum.