Heimir Heimisson, framkvæmdastjóri Hauka, lét af störfum um síðastliðin mánaðamót. Magnús Gunnarsson hefur verið ráðinn í hans stað. Magnús er Hafnfirðingum og þá ekki síst Haukamönnum að góðu kunnur en hann var bæjarstjóri á árunum 1998-2002 og hefur gegn ýmsum trúnaðarstörfum, meðal annars fyrir Hauka. Magnús hefur setið í stjórn Rekstrarfélags Hauka undanfarin ár og á árum áður sat hann í stjórn körfuknattleiksdeildar.
Magnús lítur framtíð Hauka björtum augum. Hann státar af yfirgripsmikilli rekstrarreynslu auk þess að vera fjölhæfur félagsmálamaður. Væntum við Haukamenn mikils af Magnúsi enda er rekstur á stóru íþróttafélagi krefjandi verkefni og stundum á brattann að sækja. Um leið og við bjóðum Magnús velkominn til starfa færum við Heimi Heimissyni innilegar þakkir fyrir góð störf í þágu Hauka og óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.