Haukar rúlluðu yfir Keflavík

Tierney Jenkins átti flottan leik fyrir HaukaHaukar unnu í kvöld öruggan sigur á Keflavík efsta liði Iceland Express deildarinnar 84-68. Með sigrinum komust Haukar í 4 sæti deildarinnar sem gefur keppnisrétt í úrslitakeppni Iceland Expressdeildarinnar. Fyrir leikinn höfðu Haukar sagt upp samningi við Hope Elam sem spilað hefur með Haukum í vetur en hún þótti ekki sýna nægjanlega stöðuga leiki né vera með þann styrk undir körfunni sem þjálfarar og kvennaráð K.kd. Hauka telja að liðið þarfnist. 

Í morgun lenti hér á landi Tierney Jenkins (TJ) og spilaði hún í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Hauka. TJ átti frábæran leik fyrir Hauka í kvöld var nálægt tvöfaldri fernu, skoraði 24 stig, tók 17 fráköst, átti 7 stoðsendingar, stal 7 boltum og blokkaði 3 skot. 

 

Magnaðar tölur hjá leikmanninum í fyrsta leik fyrir Hauka og án þess að hafa farið nema á eina æfingu með liðinu. TJ var að gera nákvæmlega það sem Bjarni þjálfari hafði vonast til og rúmlega það.

 

Haukar voru undir í hálfleik 32-36 þar sem TJ hafði skorað 12 stig og tekið 13 fráköst í fyrri hálfleik allt skot af stuttu færi undir körfunni.  Í byrjun 3 leikhluta hófu Keflvíkingar að loka meira á TJ sem þá fór að senda boltan á samherja sýna og raðaði Íris Sverris 3 stiga skotum niður eftir góðar sendingar. Íris endaði leikinn með 21 stig og fann sig greinilega vel í kvöld. 

Jence Rhoads átti að vanda góðan leik enda stígur hún vart feilspor í sínum leik. Stjórnar liði Hauka eins og herforingi og var enn brosmildari í kvöld en venjulega enda mjög ánægð að hafa fengið svo sterkan leikmann með sér í liði.  

Haukar skoruðu alls 36 stig gegn 19  í 3 leikhluta og lögðu með því grunninn að öruggum sigri. Á þessum tíma sáu Jence, Íris og TJ um að skora stiginn.

Næsti leikur stelpnanna í Haukum er gegn KR á miðvikudaginn eftir viku en hann er hreinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppni Iceland Expressdeildarinnar.

HAUKAMENN ÞURFA AÐ FJÖLMENNA Á ÞANN LEIK OG STYÐJA LIÐIÐ TIL SIGURS OG TRYGGJA SÆTI Í ÚRSLITAKEPNINNI!