Haukar mæta Akureyri í kvöld! – Stefán Rafn í landsliðið

Stefán Rafn Sigurmansson (mynd: Eyjólfur Garðarsson)Í kvöld er sannkallaður stórleikur á dagskrá í N1-deild karla í handbolta þegar okkar menn í Haukum taka á móti Akureyri kl.18:30 (ATH ÓVENJULEGAN LEIKTÍMA) í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Haukar sitja í 1.-2. sæti deildarinnar með 23 stig ásamt FH en Akureyri er einungis stigi á eftir þessum liðum með 22 stig. Þar á eftir koma HK og Fram bæði með 21 stig í 4. – 5. sæti deildarinnar en efstu fjögur lið deildarinnar fara í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn að deildarkeppni lokinni. Það þarf því ekkert að fjölyrða um hversu gríðarlega mikilvægur leikurinn er í kvöld fyrir bæði lið og eflaust verður háspenna í leiknum allt til loka!

Akureyringar hafa farið mikinn undanfarið eftir erfiða byrjun í deildinni og eru stigahæsta lið deildarinnar ef einungis eru taldir síðustu 9 leikir hennar, okkar menn hafa ekki náð sér alveg á strik sem skyldi undanfarið í deildinni en það er því meiri ástæða til að rífa sig upp í kvöld og taka stigin tvö sem í boði eru. 

Í eldlínunni í kvöld verður Stefán Rafn Sigurmansson sem nú fyrir helgi var valinn í A-landslið Íslendinga í fyrsta skipti og er óhætt að segja að við Haukar séum stollt af stráknum og óskum honum til hamingju með valið. Einnig var Aron Rafn Eðvarðsson valinn á ný í landliðið og óskum við honum að sjálfsögðu til hamingju með það. Það verða því tveir glæsilegir landsliðsfulltrúar okkar Hauka á fjölum Schenkerhallarinnar ásamt liðsfélögum sínum og þeir ætla sér ekkert annað en sigur!