Haukastelpur tryggðu sér í kvöld sæti í fjögurra liða úrslitum Iceland express deildarinnar með öruggum sigri á KR í Shenker höllinni að Ásvöllum, lokatölur 78-56. Fyrri hálfleikur var jafn þar sem bæði lið voru að berjast í vörninni en hittu illa í sókn en að loknum fyrri hálfleik var staðan 31 -30 fyrir Hauka. Nýji leikmaður Hauka Tierney Jenkins (TJ) fór mikinn í fyrri hálfleik og var hún kominn með tvöfalda tvennu eftir aðeins 17 mínútna leik 12 stig og 10 fráköst þó var hún ekki að setja niður nokkur auðveld skot undir körfunni í fyrri hálfleik.
Hittni Haukastelpna var frekar slök í fyrri hálfleik einungis um 30% í tveggja stiga skotum og 16% í þriggja stiga skotum. Haukar voru hinsvegar að vinna frákastabaráttuna og því fengu Haukar oft tvær til þrjár tilraunir til að setja boltann í körfuna.
KR ingar urðu fyrir áfalli eftir aðeins 7 mínútna leik þegar Sigrún Ámundadóttir slasaðist og þurfti að fara af leikvelli og kom ekki meira við sögu í leiknum. Við þetta þynntist enn leikmanna hópur KR inga en tvo sterka leikmenn vantaði í hóp KR inga fyrir leikinn. Bjarni þjálfari keyrði vel á sýnu liði í fyrri hálfleik og notaði hann 9 leikmenn í fyrri hálfleik á meðan KRingar spiluð á 6 leikmönnum.
Í hálfleik virtust leikmenn Hauka sérstaklega Jence, Íris og Margrét Rósa eiga meira inni.Greinilegt var að hálfleiksræða Bjarna þjálfara hafði góð áhrif á stelpurnar sem komu út úr hálfleiknum með miklu meira sjálfstraust og byrjuðu 3 leikhluta með 12 – 0 áhlaupi og breyttu stöðunni í 43-30. Mun betra fæði var í sóknarleik Haukanna og þá var vörnin mun betri þar sem betur gekk að stöðva Ericu Prosser sem hélt upp sóknarleik KR inga nánast ein og sér á löngum köflum.
Haukar juku forystuna jafnt og þétt eftir þetta keyrðar áfram af Jence Rhoads sem sýndi enn og aftur í kvöld leiðtoga hæfileika sína fyrir liðið. Íris setti niður þrjá mikilvæga þrista og slökkti endanlega á vonum KR inga um sigur í leiknum og þá setti Margrét Rósa niður nokkrar góðar körfur.
Þá kom María Lind Sigurðardóttir sterk inn af bekknum í kvöld og skilaði á stuttum tíma 10 stigum auk þess að taka 6 fráköst.
Lið Hauka sýnir nú mun betri leiki eftir tilkomu TJ sem er að skila góðu framlagi fyrir liðið í fráköstum og í „ódýrum“ körfum undir körfunni þar sem hún er að nýta styrk sinn vel. Þá er flæðið í sóknarleik Hauka betra nú þar sem ógnunin næst körfu er orðinn meiri sem gefur skyttum Hauka betri skotfæri en áður. Með sama leik og stelpurnar hafa sýnt nú eftir komu TJ til liðsins þá er ljóst að liðið mun veita öðrum liðum í úrslitakeppninni harða keppni.