Haukar leika gegn ÍR í Iceland Express-deildinni í kvöld og er skiptir þessi leikur Hauka miklu máli í baráttunni um að halda sæti sínu í deildinni og leika meðal þeirra bestu á næstu leiktíð.
Haukar eru sem fyrr í 11. sæti deildarinnar með 10 stig en ÍR í því 9. með 16 stig. Þrír leikir eru eftir í deildinni og ljóst að allt þarf að ganga upp hjá Haukum ef þeir ætla sér að vera áfram í IE-deildinni. Fjölnir er með 14 stig í 10. sæti og því er ennþá möguleiki fyrir Hauka að láta dæmið ganga upp.
Haukar leika sem fyrr segir gegn ÍR í kvöld í Seljaskóla, mæta svo KR í DHL – Höllinni á sunnudag og taka svo á móti Þór Þorl. næsta fimmtudag.
ÍR fær Hauka í heimsókn í kvöld, mætir svo Keflavík suður með sjó á mánudag og fá svo KR í heimsókn næsta fimmtudag.
Fjölnir fær Njarðvík til sín í kvöld, leikur gegn Stjörnunni í Garðabæ á sunnudag og fær svo Keflavík í heimsókn á fimmtudaginn næsta.
Strembið prógram hjá öllum þessum liðum og verða Haukar að treysta á hagstæð úrslit og sigra sína leiki.
Leikurinn í kvöld hefst kl. 19:15 og nú er bara að fjölmenna í Breiðholtið og öskra Haukaliðið áfram til sigurs.