Hetjulegri baráttu okkar drengja í körfuboltanum fyrir lífi sínu í Iceland Expressdeild karla í körfubolta lauk í gærkvöld þegar liðið beið lægri hlut fyrir KR í Vesturbænum.
Á vefsíðunni www.karfan er fjallað ítarlega um leikinn og er umfjöllunin hér að neðan fengin að láni frá þeirri frábæru síðu ásamt myndinni sem fylgir fréttinni.
Haukar leika í 1. deild á næstu leiktíð, KR sá til þess með 98-92
sigri á Hafnfirðingum í DHL-Höllinni í kvöld. KR leiddi frá upphafi til enda en Haukar gerðu lokasprettinn spennandi, þegar mest á reyndi hrukku skyttur KR í gang og sendu Hauka niður um deild. Joshua Brown var stigahæstur og gerði 28 stig í liði KR en Emil Þór Jóhannsson setti niður þristana sem töldu hvað mest í kvöld. Hjá Haukum var Christopher Smith með 34 stig.
Haukar léku án Chavis Holmes og munaði um minna en hann meiddist í síðasta deildarleik gegn ÍR.
Dejan Sencanski kom KR í 16-6 með þriggja stiga körfu en þá hafði Haukur Óskarsson gert öll stig gestanna fyrir utan þriggja stiga línuna. Vörn heimamanna var þétt í fyrsta leikhluta og því leiddu röndóttir 24-15 að honum loknum.
Hreggviður Magnússon bauð góðan dag með tveimur þristum í upphafi annars leikhluta og heimamenn leiddu 30-15. Skarphéðinn Freyr Ingason reyndi við ,,flestar villur metið á sem skemmstum tíma“ þegar hann halaði inn þrjár villur á tæplega tveimur og hálfri mínútu og sú þriðja í röðinni var tæknivilla.
Varnarleikur Hauka þvældist aðeins fyrir heimamönnum á lokaspretti annars leikhluta og náðu gestirnir að brúa bilið niður í níu stig, 50-41 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Joshua Brown var með 15 stig í hálfleik hjá KR en hjá Haukum var Christopher Smith með 16 stig. Eflaust hefði munurinn verið minni á liðunum ef Haukar hefðu farið betur að ráði sínu í teignum í fyrri hálfleik, aðeins 9 af 26 teigskotum rötuðu rétta leið.
KR virtist ætla að sprengja Hauka utan af sér í þriðja leikhluta, byrjuðu með 8-2 sprett en leikhlutinn fór 28-24 fyrir KR og staðan því 78-65 fyrir röndótta þegar fjórði og síðasti leikhluti hófst og ekkert sem benti til annars en að sigur KR yrði öruggur í kvöld.
Rauðir Haukamenn með falldrauginn á bakinu opnuðu fjórða leikhluta 1-6. Brown hóf leikinn utan vallar en var fljótt sendur inn til að stýra heimamönnum á nýjan leik, stutt hvíld þar. 3-2 svæðisvörn Hauka var að þreka KR, skotin vildu ekki niður og þegar þeir komust upp að körfunni voru langir armar Smith að trufla þá.
Haukar urðu fyrir áfalli þegar fimm mínútur voru til leiksloka, andinn var að koma yfir þá eftir þrist frá Smith sem breytti stöðunni í 81-76 þegar Emil Barja fékk sína fimmtu villu. Reyndar má taka undir með Emil og hans óánægju en þrjár síðustu villurnar sem hann fékk dæmdar á sig má vel skeggræða á næstu kaffistofu og deila um ágæti þeirra.
Haukur Óskarsson minnkaði svo muninn í 83-82 með þriggja stiga skoti fyrir Hauka þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og vonin um áframhaldandi sæti í deildinni gekk í gegnum endurnýjun lífdaga í herbúðum Hauka. Gleðin var skammvinn því á lokasprettinum fann KR lausnina gegn 3-2 svæðisvörninni, skotin fóru að detta. Brown kýldi einn niður og Emil Þór Jóhannsson bætti tveimur til viðbótar og staðan 92-84 þegar 51 sekúnda lifði leiks. Þegar svo 30 sekúndur voru eftir náðu KR-ingar sóknarfrákasti eftir annað þriggja stiga skot og þar með var von Hauka endanlega gerð að engu. Lokatölur 98-92.
Leikurinn í kvöld kristallaði tímabilið hjá Haukum, spennuslagur þar sem Hafnfirðingar ná ekki að klóra út sigur og með Chavis Holmes meiddan. Það hefur ýmislegt gengið á hjá Haukum þetta tímabilið og það var alltaf langsótt að fara í vesturbæinn og ná í sigur, það gildir um öll lið á Íslandi enda KR-ingar illir viðureignar á fjölum DHL-hallarinnar.