Slagurinn um Hafnarfjörð!

Það er stórleikur framundan á morgun!Á morgun fer fram sannkallaður stórleikur í N1-deild karla í handbolta þegar við Haukar höldum upp í Kaplakrika og mætum nágrönnum okkar í FH. 

Það vantar ekki stóru orðin hjá stuðningsmönnum FH fyrir leikinn en Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri FH segir orðrétt á heimasíðu félagsins: ,,Leikurinn fer 28 – 20. Þetta verður slátrun hjá Fimleikafélaginu„. 

Við Haukar látum að sjálfsögðu vera að vera með stórar yfirlýsingar fyrir leik enda vita allir sem árangri ná að betra er að láta verkin tala á vellinum en utan hans. Staða Hauka í deildinni segir okkar nákvæmlega hvar okkar menn vinna sína vinnu. Hins vegar mun staðan í deildinni hjálpa okkur neitt á morgun og það vita leikmenn og þjálfarar liðsins. Engin hætta er á öðru en að menn mæti rétt gíraðir til leiks!

Okkar menn sitja í efsta sæti deildarinnar með 11 stig, fjórum stigum meira en FH-ingar sem sitja í 5. sæti með 7 stig líkt og reyndar Akureyri, Fram og ÍR sem eru í 2-4. sæti. Með sigri í leiknum geta okkar drengir aukið forskot sitt í deildinni í 6 stig en tap þíðir að FH er komið á hæla okkar, tveimur stigum á eftir og fer alla leið í 2. sæti. 

 Fjölmennum öll og eignum okkur Krikann á morgun, laugardag. Leikurinn hefst kl. 15:00 og þá verður Kaplakriki málaður rauður! Áfram Haukar!