Ásgeir Þór Ingólfsson sneri aftur heim á Ásvelli nú fyrir stuttu, er hann skrifaði undir samning við uppeldisfélagið eftir árs dvöl hjá Val í Pepsi-deild karla. Ásgeir þekkja allflestir Haukamenn, sem hafa fylgst með knattspyrnunnni undanfarin ár, hann sló í gegn undir að árum í 2.deildinni og spilaði síðan stórhlutverk í því að koma Haukum upp í Pepsi-deildina 2009. Hann varð síðan fyrir því óláni að meiðast stuttu fyrir tímabilið 2010 og var lengi að ná sér það tímabil, hann lék síðan með Haukum í 1.deildinni 2011 en gekk lék síðan með Val síðasta sumar og spilaði þar á köflum mjög vel.
Undirritaður heyrði í Ásgeiri og spurði hann út í komuna heim og það sem framundan er hjá liðinu.
,,Ég vildi fara frá Val og fá almennilegan spiltíma. Þegar ég tilkynnti Völsurunum að ég myndi liklegast ekki vera áfram þá höfðu önnur lið samband við mig um að koma í sínar raðir, Haukarnir voru fljótir að setja sig í samband við mig og eftir að ég fór á fund með Sigurbirni Hreiðarssyni aðstoðarþjálfara var þetta aldrei spurning,“ segir Ásgeir sem þakkar Valsmönnum fyrir tímann á Hlíðarenda,
,,Ég þakka hinsvegar Völsurunum fyrir lærdómsríkt tímabil og fyrir þann heiður að fá að klæðast Valstreyjunni og óska ég þeim og Magga Gylfa góðs gengis á komandi tímabili.“
Ásgeir var duglegur að mæta á leiki Hauka í sumar og hann telur að margt sé hægt að bæta við leik liðsins frá því í sumar,
,,Ég sá marga leiki hjá strákunum og mér fannst þetta vera frekar tvískipt. Mér fannst liðið standa varnarleikinn frábærlega og gerðu fá mistök þar , en sóknarlega fannst mér mikið þurfa að bæta. Þetta gekk mjög vel framanaf tímabili en svo fjaraði þetta út því miður hjá okkar mönnum.“
Ásgeir er ánægður með að þá leikmenn sem eru komnir í Hauka, en vonast eftir að fá að minnsta kosti 1-2 í viðbót til að styrkja liðið fyrir komandi tímabil,
,,Mér lýst frábærlega á strákana sem eru komnir. Hilmar Rafn Emils. og Hilmar Geir voru duglegir að heyra í mér og tala mig aftur yfir í rauða búninginn sem ég sé svo sannarlega ekki eftir. Sigmar og Viktor Smári eru góðir leikmenn sem smellpassa inní hópinn og það er ætlast mikið af þeim mönnum. En mér finnst samt mega bæta við 1-2 leikmönnum til að gera hópinn enn betri,“ sagði Ásgeir sem telur það ekki vera neitt leyndarmál að Haukaliðið stefnir á eitt, það er að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni,
,,Það er einfalt mál. Menn þurfa að hugsa um það eitt að fara upp. Það þarf að vera gaman hjá okkur á æfingum og utan boltans. Þá náum við okkar markmiðum. Það hlakkar mikið í okkur leikmönnunum að fara spila strax okkar fyrsta leik. Ég vonast eftir því að Haukafólkið verði duglegra að mæta á leiki hjá okkur því það munar heilum manni að fá góðan stuðning frá þeim. Saman getum við gert þetta að frábæru sumri,“ sagði Ásgeir Þór að lokum og tekur undirritaður undir þessi orð hjá honum.
Við þökkum Ásgeiri Ingólfs. kærlega fyrir þessi svör og bjóðum hann velkominn heim að nýju.
Á næstu dögum höldum við áfram að birta viðtöl við nýja liðsmenn Hauka og næstur í röðinni verður Sigmar Ingi Sigurðarson markvörður sem gekk til liðs við Hauka frá Breiðablik.