Haukar gerðu góða ferð upp á Skaga í kvöld og unnu heimamenn í ÍA 54-88 en sigur Hauka var aldrei í hættu. Haukar færðu sig nær Hetti sem situr í þriðja sæti með 10 stig en Haukar eru sem fyrr í því fjórða með 8 stig. Liðin skiptust á körfum í upphafi og breyttu Haukar stöðunni úr 9-8 í 9-20 og var þá strax ljóst í hvað stefndi.
Elvar Steinn Traustason skipti yfir í Hauka fyrir tímabilið og byrjaði að spirkla með B-liði Hauka. Hann hafði ekki hugsað sér að taka fram skóna að nýju en fyrir stuttu ákvað hann að taka slaginn og var í fyrsta skipti í vetur í hóp Haukanna. Elvar kom inn á í leiknum í kvöld og afrekaði að setja niður eina körfu og brjóta af sér. Þegar heimasíðan spurði hann hvernig honum fyndist að vera kominn aftur sagði hann bara: „Það er geggjað, rokk og ról.“
Aaryon Willams var stigahæstur Hauka með 23 stig og 7 fráköst og Haukur Óskarsson var einnig með 23 stig.
Allir leikmenn Hauka komu við sögu í þessum leik og stóðu sig með prýði að sögn þjálfara.