Í Morgunblaðinu sl. miðvikudag birtist grein eftir Magnús Gunnarsson, framkvæmdastjóra Hauka. Heimasíðunni þótti að sjálfsögðu tilvalið að birta efnið enda öllum félagsmönnum í Haukum mikilvægt lesefni! Hér að neðan má lesa grein Magnúsar:
Það hefur löngum verið sagt að Hafnarfjörður sé mikill íþróttabær og víst er að góður árangur hafnfirsks íþróttafólks hefur borið hróður bæjarins víða. Haukar og FH, Fimleikafélagið Björk, Sundfélag Hafnarfjarðar, Hestamannafélagið Sörli, Golfklúbburinn Keilir, Badmintonfélag Hafnarfjarðar, Siglingaklúbburinn Þytur og Íþróttafélagið Fjörður, allt eru þetta félög sem leggja grunninn að sæmdarheitinu sem bæjarbúar eru svo stoltir af, íþróttabænum Hafnarfirði. Auk þess að eiga frábært íþróttafólk státum við einnig að öflugu stuðningsneti sjálfboðaliða sem hafa á árum og áratugum staðið dyggan vörð um starf íþróttafélaganna og unnið ómetanlegt starf í þágu þeirra. Á undanförnum áratugum hefur Hafnarfjarðarbær byggt mörg myndarleg íþróttamannvirki og aðstaða til íþróttaiðkunar hefur um margt verið til fyrirmyndar. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa líka löngum haft góðan skilning á því hversu mikill ágóði fellst í því að hlúa vel að öllu íþróttastarfi og hversu mikið forvarnargildi það hefur að stunda íþróttir.
Á fundi Íþróttabandalags Hafnarfjarðar sem haldinn var nýverið kom fram að um 27% umframeftirspurn væri nú þegar eftir æfingartímum í íþróttahúsum bæjarins. Stjórn Íþróttabandalags Hafnarfjarðar hefur af þessu miklar áhyggjur og skoraði á bæjaryfirvöld að horft yrði til þess að byggja nýjan íþróttasal við Íþróttamiðstöðina á Ásvöllum, en í deiliskipulagi er þar gert ráð fyrir nýjum íþróttasal og raunar er þegar búið að steypa þar botnplötu auk lagnakjallara. Er þá gert ráð fyrir að nýta búningsaðstöðu og stoðþjónustu sem þegar er fyrir hendi á Ásvöllum. Íþróttamiðstöðin á Ásvöllum, þar sem Knattspyrnufélagið Haukar hefur sína aðstöðu, getur ekki lengur annað þeirri þjónustu sem íbúar í nærumhverfi Íþróttamiðstöðvarinnar telja ásættanlega. Íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum var tekin í notkun árið 2001 á 70 ára afmæli Knattspyrnufélagsins Hauka, um það leyti sem bygging íbúða hófst í Áslandi. Nú, ellefu árum síðar, hefur íbúum fjölgað í Áslandi, auk þess sem 5000 manna byggð er risin á Völlum, en gert er ráð fyrir 18.000 manna byggð á nýjum byggingasvæðum sunnan Reykjanesbrautar.
Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu eru ekki einsleit. Þau hafa öll sín sérkenni. Sitt aðdráttarafl. Dugmiklir íbúar og öflug fyrirtæki eru þar kjölfestan. Á þeim þarf Hafnarfjörður nú að halda til að komast í gegnum uppsafnaðan skuldaskafl. Það verður sjálfsagt ekki auðvelt. Þá ber hins vegar að forgangsraða rétt, fjárfesta í því sem mestu máli skiptir, æsku bæjarins, framtíð hans.
Hafnfirðingar, höldum okkar sérkennum, verum stolt af bænum okkar, íþróttabænum Hafnarfirði.
Magnús Gunnarsson.
Höfundur er framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Hauka.