Haukar taka á móti Aftureldingu í kvöld

Haukar-Afturelding, Ásvellir kl.19:30Haukar taka á móti Aftureldingu í dag í N1-deild karla í handbolta. Leikurinn fer fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum og hefst kl.19:30. 

Eins og nokkuð þekkt er orðið eru okkar menn með örugga forystu í deildinni, sitja í efsta sæti með 19 stig og hafa 8 stig á Akureyri, FH og ÍR sem öll eru með 11 stig í öðru til fjórða sæti deildarinnar.

Gestirnir úr Mosfellsbæ eru neðstir í deildinni með 6 stig. Þeir eru þó ekki nema 5 stigum frá öðru sæti deildarinnar og eru langt því frá að vera auðveldir viðureignar. Afturelding hefur gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni, gegn Val og HK.Haukar hafa unnið alla sína leiki í deildinni ef frá er talinn fyrsti leikurinn, sem var gegn HK og endaði með jafntefli.

Það er óhætt að lofa hörku leik í kvöld þó þarna mætist liðin í efsta og neðsta sæti deildarinnar, deildin er jöfn og augnabliks vanmat getur kostað sigur. Allir á völlinn og áfram Haukar!