Keflavík slátrað í gamla sláturhúsinu

Haukar heimsóttu Keflavík í dag í 15. umferð Dominosdeildar kvenna og höfðu sanngjarnan 61-73 sigur upp úr krafsinu. Ekki var að sjá á stelpunum að þær hafi misst sig í hátíðarmatnum í jólafríinu en það sama er ekki hægt að segja um Keflavík sem spilaði ekki sína frægu pressu allan leikinn eins og þær eru vanar að gera heldur einungis á upphafs og loka mínútum leiksins.

Siarre Evans átti einstaklega glæsilegan leik með 34 stig, þar af 7/9 í þriggjastigaskotum, 14 fráköst, 5 stolna bolta og 2 varin skot.

Einnig voru Auður Íris og Margrét Rósa góðar með 9 stig hvor þar sem þær voru atkvæða miklar í sínum hvorum leikhlutanum, Auður í fyrsta og Margrét í fjórða.

Jóhanna Björk og María Lind skiluðu góðri varnarvinnu. María var með 6 fráköst, þar af 3 sóknarfráköst, og einnig 8 stig. Jóhanna var svo með 8 fráköst og 4 varin skot en þarf þó eitthvað aðeins að fara æfa vítaskotin sín þar sem hún setti aðeins 1 af 8 niður í dag.

Nánar um leikinn á Karfan.is