Faxaflóamót kvenna: Haukar taka á móti Keflavík

HaukarÁ morgun, laugardaginn 19. janúar hefja Haukar leik í Faxaflóamóti meistaraflokks kvenna í knattspyrnu. Haukar taka þá á móti Keflvíkingum og hefst leikurinn stundvísilega kl.13:00 á Schenkervellinum á Ásvöllum.

Haukastelpur hafa hingað til leikið fjóra æfingaleiki. Þær byrjuðu gegn Fjölni þar sem 1-3 tap var niðurstaðan, því næst komu þrír sigurleikir 7-1 gegn Tindastól, 3-1 gegn Álftanesi og svo loks 2-1 gegn KR sl. sunnudag í Egilshöll.

Haukaliðið hefur tekið miklum breytingum og má segja að það sé annað árið í röð sem það gerist. Þórdís Anna Ásgeirsdóttir, Sonja Björk Guðmundsdóttir, Nína Friðriksdóttir, Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir, Rannveig Elsa Magnúsdóttir, Rún Friðriksdóttir, Lovísa Einarsdóttir, Kristín Ösp Sigurðardóttir (lán), Kristín Lovísa Lárusdóttir og Stefanía Ósk Þórisdóttir hafa allar horfið á braut á undanförnu ár.

Haukar hafa ekki setið auðum höndum og að sjálfsögðu styrkt sig með öðrum leikmönnum í staðin sem bæði koma úr yngri flokkum félagsins og öðrum félögum. Þórunn Sigurjónsdóttir, Hulda Sigurðardóttir, Katrín Edda Einarsdóttir og Eva Núra Abrahamsdóttir komu frá Fylki í október og Sara Rut Pálsdóttir kom úr FH á sama tíma. Þórhildur Guðný Sigþórsdóttir kom frá Keflavík og þær Katrín Klara Emilsdóttir (lán) og Eydís Lilja Eysteinsdóttir (lán) úr Stjörnunni. Edda Ósk Dufþaksdóttir kom á láni frá Breiðabliki og svo hafa tveir leikmenn verið teknir upp í æfingahóp meistaraflokks úr yngri flokkum. 

Það er því vægast sagt forvitnilegt fyrir Haukafólk að sjá þetta nánast splúnkunýja Haukalið leika gegn Keflavík á morgun.