Haukar koma ekki til með að verja bikarmeistaratitil sinn í handbolta, þetta var ljóst eftir 20-24 tap gegn ÍR í 8-lið úrslitum Símabikarsins í gærkvöld. Okkar drengir náðu sér aldrei á strik í leiknum og spiluðu vægast sagt illa í 45 mínútur af þeim 60 sem leikurinn er. Mikið skorti á að einhver leikmaður tæki frumkvæðið í leiknum í gær sem sannast sérstaklega á því að enginn leikmaður skoraði meira en 3 mörk í gær.
Aron Kristjánsson þjálfari Hauka var í viðtali við Vísi í gær og var svo sannarlega ekki sáttur:
„Við spiluðum bara mjög illa hér í kvöld og vorum virkilega lélegir sóknarlega í 45 mínútur,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka eftir tapið í kvöld.
„Síðasta korterið vorum við farnir að gera það sem lagt var upp með og menn farnir að taka réttar ákvarðanir. Við gerum okkur seku um ótal byrjendamistök í leiknum í kvöld og ég veit hreinlega ekki hversu oft við skutum beint á markvörðinn.“
„Við þurfum heldur betur að skoða sóknarleik okkar frá grunni og leggjast vel yfir hann. Þetta var virkilega dapurt í kvöld.“
„Ég hafði ákveðnar áhyggjur af liðinu eftir þetta langa frí og ég skynjaði ákveðið kæruleysi í liðinu þar sem við vorum með átta stiga forystu á næsta lið í deildinni. Þetta verðum við að laga og vinna mikið í andlega þættinum næstu daga.“
Önnur viðtöl og ítarlega umfjöllun um leikinn má sjá á visi.is með því að smella hér