Haukar Faxaflóameistarar B-deildar

Haukar fögnuðu sigri í Faxaflóamótinu í gær. Á myndina vantar nokkra leikmenn liðsins.Haukastúlkur urðu í gærkvöldi Faxaflóameistarar B-deildar eftir 1-1 jafntefli við Álftanes í hreinum úrslitaleik um sigur í mótinu. Bæði lið hafa tekið miklum framförum frá því í fyrra og mátti búast við hörku leik á Shcenkervellinum sem varð raunin.

Þrátt fyrir að Haukar væru meira með boltann og líklegri til að skora voru það gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu um miðbik fyrri hálfleiks. Var þetta mark það fyrsta og eina sem Haukar fengu á sig í fjórum leikjum í mótinu.

Mikil barátta einkenndi seinni hálfleik og varð leikurinn nálægt því að vera grófur á köflum, gul og rauð spjöld hófust á loft hjá dómara leiksins og mikið gekk á. Haukastúlkur lágu í sókn en gekk illa að skapa sér afgerandi marktækifæri.

Það var svo loks á 93. mínútu að Haukar jöfnuðu metin, var þar að verki Svava Björnsdóttir úr víti sem hún nældi sjálf í. Stuttu eftir markið flautaði dómari leiksins til leiksloka og jafntefli staðreynd. Jafnteflið nægði Haukastúlkum til sigurs í mótinu, þar sem Álftanes þurfti að vinna Hauka til að komast upp í efsta sætið. Haukar fögnuðu þær vel og innilega, því titill er titill, sama hversu stór hann er!

Haukar enduðu með 10 stig í efsta sæti mótsins, skoruðu 17 mörk og fengu á sig eitt. Til hamingju stúlkur.