Öruggt gegn Augnablik

HaukarHaukarstrákarnir unnu öruggan sigur á Augnablik í kvöld, 101-73 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.
Strákarnir fóru vel af stað og voru 17 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta.  Heldur dró af drengjunum í öðrum leikhluta og munurinn var 11 stig í hálfleik.  Haukar tóku svo góðan sprett í lok leiksins og enduðu með 28 stiga sigri.  Terrence Watson innsiglaði sigurinn með flottri alley-oop troðslu í lokin eftir sendingu frá Sigurði Einarssyni.

Nokkuð skorti á einbeitingu hjá okkar mönnum í vörninni á köflum og slatti af misheppnaðum sendingum í sókninni.  En þegar einbeitingin var í lagi spilaði liðið glimrandi vel og er allt annað að sjá til liðsins en fyrir jólin.  Frá áramótum hefur liðið leikið 7 leiki og unnið þá alla, með 33 stiga mun að meðaltali.
Haukur Óskarsson var stigahæstur Haukamanna með 20 stig, Terrence Watson með 15 stig og 12 fráköst, Davíð Páll Hermannsson með 14 stig, Emil Barja með 12 stig og Kristinn Marinósson með 10.  Í viðbót við stigin 12 var Emil með 9 fráköst, 8 stoðsendingar og 7 stolna bolta.
Haukar er nú í næstefsta sæti 1 deildar með 24 stig, 2 stigum á eftir Val sem er nú farið að fatast flugið.  Valsmenn voru ósigraðir fram að viðureign sinni við Hauka fyrir viku síðan.  Eftir þann leik varð ljóst hvaða lið er að spila best í deildinni um þessar mundir því Haukar völtuðu yfir Val í leiknum og unnu með 30 stiga mun, 89-59.
Í kvöld tapaði svo Valur sínum öðrum leik á tímabilinu, nú fyrir Þór á Akureyri með 17 stiga mun.  Þess má geta að Haukar unnu Þór á Akureyri með 48 stiga mun fyrir mánuði síðan í fyrsta leiknum sem Þór tapaði á heimavelli á tímabilinu.
Nú munar aðeins 2 stigum á Val og Haukum og Haukar eru með yfirhöndina í innbyrðisleikjum.  Hamar er svo í þriðja sætinu með jafnmörg stig og Haukar, jafnt er í innbyrðisleikjum en Haukar hafa yfirhöndina á heildarstigamun í deildinni.  Verður gríðarlega spennandi að fylgjast með liðunum í þeim þremur umferðum sem eftir eru í deildinni, en Valur og Hamar eigast við í næstsíðustu umferðinni.  Haukar heimsækja Reyni í Sandgerði næsta föstudag, fá svo Breiðablik í heimsókn og enda á útileik móti Hetti á Egilsstöðum.