Haukar sigruðu Reyni frá Sandgerði í 1. deild karla í körfubolta í gær, 69-95, en liðin mættust í Sandgerði. Haukar hafa verið á miklu flugi eftir áramót og var þetta sjöundi sigurleikur liðsins í röð eða síðan Haukar töpuðu fyrir Breiðablik í fyrri umferð Íslandmótsins.
Leikur Hauka í gær leit allt annað en vel út í upphafi leiks. Menn voru ekki á tánum í vörninni og náði Reynismenn að halda sér inn í leiknum allan fyrri hálfleikinn. Mikil stemning var í heimamönnum og allt fór ofan í. Á sama tíma voru Haukastrákar að flýta sér um of og við það komu mikið af klikkuðum skotum og töpuðum boltum.
Haukar leiddu þó í hálfleik með níu stigum, 38-47 og ljóst að skerpa þyrfti á leik Haukamanna.
Það var allt annað að sjá til leikmanna í seinni hálfleik. Um leið og Haukar hættu að hleypa Reyni í auðveldar körfur, stigu út og fráköstuðu komu mikið af auðveldum körfum og munurinn jókst jafnt og þétt.
Haukar náðu mest 28 stiga forystu um miðjan fjórða leikhluta og unnu eins og fyrr segir með 26 stiga mun 69-95. Við sigurinn halda Haukar enn í þá von að komast beint upp úr deildinni en aðeins munar tveimur stigum á Haukum og Val en Valur situr í efsta sæti deildarinnar.
Terrence Watson var stigahæstur Haukastráka í gær með 29 stig og 10 fráköst og Haukur Óskarsson smellti niður 21 stigi.
Næsti leikur Haukastráka er föstudaginn 15. mars gegn Breiðablik í Schenker-höllinni.