Sigurbjörn Örn ráðinn þjálfari Hauka

HaukarKnattspyrnudeild Hauka undirritaði í kvöld samninga við þá Sigurbjörn Hreiðarsson, Matthías Guðmundsson og Kristján Ómar Björnsson, en þeir mynda þjálfarateymi meistaraflokks karla á næsta keppnistímabili.

Sigurbjörn, sem verður þjálfari liðsins, hefur verið aðstoðarþjálfari Hauka síðastliðin tvö ár, ásamt því að spila með liðinu. „Þetta er einstakt tækifæri. Það hefur verið lærdómsríkt að vinna með Óla á undanförnum árum enda fáir með viðlíka reynslu og hann. Við munum að miklu leyti byggja á því sem fyrir er en að sjálfsögðu koma einhverjir nýir leikmenn inn og einhverjir hverfa á braut. Þó svo að ég færist enn meira á hliðarlínuna þá er ég ekki hættur að spila fótbolta. Ef strákarnir standa sig ekki er aldrei að vita hvað gerist,“ segir hinn síungi Sigurbjörn.

Matthías, sem verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins, er uppalinn í Val og hefur spilað 272 leiki í deild og bikar. Knattspyrnudeild Hauka býður hann innilega velkominn í félagið.

Kristján Ómar Björnsson, sem verður styrktarþjálfari, hefur spilað með Haukum frá unga aldri, en hann hefur alls spilað 244 leiki í deild og bikar.

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka á nú í viðræðum við leikmenn um að spila með félaginu á næstu leiktíð og markmiðið er að sjálfsögðu að halda áfram því öfluga starfi sem unnið hefur verið síðustu ár, en félagið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild eftir síðustu leiktíð þar sem liðið endaði í þriðja sæti á markamun.

Ólafur Jóhannesson og stjórn knattspyrnudeildar Hauka komust að samkomulagi um að Ólafur hætti þjálfun liðsins. Stjórn knattspyrnudeildar Hauka þakkar Ólafi fyrir ánægjulegt samstarf og vel unnin störf fyrir félagið og óskar honum velfarnaðar í öllu því sem framundan er.