Meistaraflokkur karla í handbolta lék í gær gegn HK í Schenkerhöllinni í sjöundu umferð Olísdeildar karla. Haukamenn mættu grimmir til leiks og ætluðu ekki að láta gestina sækja stig í Fjörðinn.
Gestirnir skoruðu þó fyrstu tvö mörkin en þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður voru Haukarnir búnir að skora fimm mörk í röð og staðan orðin 5 -2. Haukar héldu áfram að vera yfir út hálfleikinn en staðan að honum loknum var 12 – 7. Síðasta markið í fyrri hálfleik gladdi áhorfendur en það kom upp úr glæsilegu spili sem endaði á að Matthías Árni skoraði rétt áður en flautað var til hálfleiks.
Sigur Hauka var aldrei í hættu í seinni hálfleik en mestur fór munurinn upp í 12 mörk í stöðunni 20 – 8 en þegar lokaflautið gall var niðurstaðan 8 marka sigur Hauka, 29 – 21.
Það eina sem hægt er að segja um þennan leik er að það var gott að fá tvö stig og það nokkuð örugglega og auðvitað það að Haukarnir eru nú einir á toppnum í bili. Sigurbergur var eins og svo oft áður markahæstur með 6 mörk en næstir honum voru Einar Pétur og Adam með 4 mörk. Giedrius varði mjög vel eða 17 skot og Einar Ólafur 3, en hann spilaði síðustu mínútur leiksins.
Næsti leikur Hauka er gegn Val í Schenkerhöllinni þann 14. nóvember kl. 20:00.
Áfram Haukar!