Haukar mæta Njarðvík í Domino‘s deild karla í kvöld þegar sjöunda umferðin klárast. Leikurinn hefst kl. 19:15 og leikið er í Njarðvík. Liðin eru jöfn af stigum í töflunni og með sigri geta Haukar skottast upp í 3. eða 4. sæti deildarinnar og því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða.
Heimasíðan setti sig í samband við Elvar Stein Traustason, fyrrum leikmann Hauka og íhlaupa sjónvarpsþul hjá Haukar TV, og fékk hann til að spá fyrir um leikinn í kvöld. Sem góðum Haukamanni sæmir spáir hann naumum sigri Hauka.
„Þessi leikur verður gríðarlega spennandi enda virðast liðin mjög svipuð á pappírum. Skemmtileg blanda af ungum of sprækum strákum í bland við eldri jaxla. Bakvarðarsveitin hjá Njarðvík er ekkert slor. Elvar er náttúrulega allt í öllu sóknarlega hjá Njarðvík og hefur oft reynst Haukunum erfiður viðureignar og ekki hefur Logi Gunnars verið mikið síðri í vetur.“
„Spútniklið Hauka kemur til með að treysta á að Terrence Watson loki teignum og skili vel í sókninni. Leikurinn kemur til með að ráðast á því hvort að Haukar nái að stöðva Elvar og hvort að Terrence fái nægilega hjálp í sókninni, þar horfi ég til Hauks Óskarsonar. Þá er kominn tími á að Davíð „kjötpabbi“ Hermannson smelli í einn 20 plús leik. Haukar taka þetta eftir spennandi leik, kæmi ekki á óvart þó að það þyrfti aukaleikhluta og lokatölur verða 98-101 þar sem Sigurður Einarsson setur niður flautukörfu fyrir sigurinn. Emil Barja tekur svo áskorun Mattíasar Sigurðssonar persónulega og hleður í eina „silent“ þrennu.“