Haukar.is setti sig í samband við nokkra valinkunna menn og fékk þá til að skjóta á tölur fyrir leik Hauka og Snæfells á morgun. Allir þeir sem síðan spjallaði við skutu á sigur Haukamanna en naumt verður það þó í flestum spám.
Leitað var til þriggja fyrr um þjálfara Hauka sem og pjakkanna í Haukar TV og birtum við spár þeirra hér fyrir neðan.
Henning Henningsson:
Þetta er okkar ár…
Leikurinn á sunndaginn gegn Hólmurunum verður algjör úrvals-skemmtun. Bæði lið hafa yfir að ráða miklum styrk undir körfunni auk þess sem byssur liðanna hafa verið að negla þristaum í öllum regnbogans litum. Ef Gunni formaður þeirra Hólmara mætir þá verður þetta jafn og skemmtilegur leikur en ef Gunni verður heima með spúsu sinni fyrir vestan þá munum við sigla frammúr í 3 leikhluta og innbyrða 11 stiga sigur.
Að öllu gamni slepptu mun þetta verða sálfræðitryllir tveggja mjög hæfra þjálfara, þeirra Ívars og Inga Þórs, en leikskipulag og spennustilling þeirra mun hafa mikið að segja um úrslit þessa leiks. Ég held að pressa þeirra Hólmara með ólöglegu sí-flauti Inga Þórs mun ekki hafa teljandi áhrif á okkar menn (það er stundum eins og fjórði dómarinn sé mættur þegar Ingi byrjar að flauta Hólm-pressuna í gang).
Bikarleikir sem þessir eru alltaf óútreiknanlegir, hefðin og árangur undanfarinna ára segir að Snæfell vinni leikinn en ég er þess þó fullviss að kjúllarnir hans Ívars séu ekki á sama máli og bjóði upp á óvænt og skemmtileg úrslit. Á pappírunum eru Siggi Þ., Nonni Mæju, Svenni, Pálmi, Finnur Atli, Hafþór og hin vesturlands-tröllin óyfirstíganleg hindrun, en á parketinu verða það þó meistari Barja, Kári litli, Haukur blekaði, Siggi rakaði, Helgi Björn hinn hrikalegi og síðast en ekki síst hr. hökutoppur sem munu láta ljós sitt skína, en þessir piltar munu líklega draga vagninn og koma í veg fyrir að hefð, saga eða úrslit undanfarinna ár hafi áhrif og tryggja okkur sæti í 8 liða úrslitum bikarsins.
Minnugur þess að við unnum Hólmaranna hér á Ásvöllum síðast þá er ég búinn að reikna út að leikurinn fer 84-82 fyrir Hauka.
Áfram Haukar,
Reynir Kristjánsson:
Aðalmálið fyrir Hauka er að halda dampi allan leikinn og stytta „slæma“ kaflann eins og hægt er. Liðið getur spilað alveg glimrandi vel og sérstaklega hefur varnarleikurinn oft verið mjög góður, en svo koma kaflar sem eru afleitir og þar er liðið stundum að missa af möguleikanum á sigri. Nú er bara orrusta framundan þar sem ekkert verður gefið eftir og ef liðið nær að halda Snæfellsliðinu undir 80 stigum og Nonna Mæju í kringum 10 stig, þá er ágætur möguleiki. Leikurinn endar með 79 – 77 sigri Hauka
Pétur Ingvarsson:
Mér sýnist Snæfell ekki ráða við þann hraða sem Ingi vill spila á sem hentar Haukum vel, sem líta vel út á hálfum velli bæði sóknar- og varnalega. Haukar taka þetta 73-70.
Að endingu fengum við strákana hjá Haukar TV til að segja sína skoðun en þeir Stefán, Gunnar, Elvar, Brynjar og Kiddi Bergmann höfðu þetta að segja
Haukar TV:
E: Haukar koma klárlega til með að læra af reynslunni og klára spennuleik, loksins. Það verður engin vörn spiluð í þessum leik og fullt af stigum. 99-97 fyrir Hauka.
G: Já það verður engin vörn spiluð í þessum leik eins og Elvar segir, það er alveg ljóst. Ég býst við að Haukur verði með 40+ stig í leiknum og Haukar vinna 110-101.
S: Strákar þessi leikur er að fara í framlengingu allan tímann. Snæfell kannski hálfu skrefi á undan næstum allan leikinn en Haukar bíta vel frá sér í lokinn og verða klaufar að vinna ekki leikinn í venjulegum leiktíma. Hins vegar taka þeir framlenginguna örugglega og vinna 88-83.
B: Þið hafið allir rangt fyrir ykkur strákar, þetta verður solid 12 stiga sigur Hauka 89-77.
K: Haukar áttu nú ekkert æðislegan leik á fimmtudaginn en munu hafa tak á Snæfelli þennan veturinn og vinna 92-87.