Haukar fá Fram í heimsókn í kvöld

Einar Ólafur sýndi á köflum frábæra takta gegn FH í síðasta leik, vonandi verða markmenn Hauka í stuði í kvöldÍ kvöld, fimmtudag kl. 20:00, leika Haukar og Fram í Olísdeild karla í Schenkerhöllinni að Ásvöllum. Fram eru ríkjandi Íslandsmeistarar en tefla fram mjög breyttu liði frá því í fyrra og var þeim ekki spáð góðu gengi í vetur. Þeir hafa hingað til náð að afsanna þessar hrakspár og eftir 10 umferðir eru þeir í 3. sæti með 12. stig.

Liðin áttust við í fyrstu umferðinni og höfðu þá Framarar betur í mjög skrýtnum handboltaleik þar sem lítið var skorað en lokatölur voru 19 – 18. Menn voru ekki sammála um hvað hefði valdið því að Haukar náðu sér ekki á strik í Safamýrinni en þeir höfðu þá, eins og nú, unnið FH sannfærandi í umferðinni á undan. Patti og félagar eru alveg örugglega meðvitaðir um að það dugir ekkert vanmat gegn Fram enda hafa þeir sýnt það að þeir eru með hörkulið sem getur á góðum degi unnið hvaða lið sem er í Olísdeildinni. 

Við þurfum nú sem endranær að fá góða mætingu á pallana og vera duglega að láta í okkur heyra – ÁFRAM HAUKAR!

Þessi leikur er síðasti deildarleikurinn fyrir áramót en strákarnir spila á sunnudaginn við fyrstudeildarlið Víkings í bikarnum og fer sá leikur fram í Víkinni.