Í gærkvöldi heimsóttu Haukapiltar Víkinga heim í 16 liða úrslitum Coca Cola bikarkeppninnar. Eins og flestir vita þá eru Haukar á toppi úrvalsdeildarinnar en Víkingar leika í 1. deild og eru þar í 6. sæti. Því var fyrirfram ekki búist við jöfnum leik í Víkinni og það varð líka raunin. Í fyrrihálfleik sýndu Víkingar þó klærnar og Hauka virkuðu á köflum frekar kærulausir og næst komust Víkingar á 10 – 12 en staðan í hálfleik var 11 – 16. Það virtist sem leikmenn Hauka hafi fengið góða yfirhalningu um værukærni í hálfleik því leikur liðsins var miklu betri í seinni hálfleik og eftir um 8 mínútna leik voru Haukar búnir að skora 5 mörk en heimamenn ekkert. Að lokum fór það svo að Haukar sigruðu örugglega 19 – 37 og því seinni hálfleikinn 8 – 21. Haukar eru því komnir áfram í 8 liða úrslit bikarkeppninnar í ár.
Það var unun að fylgjast með Haukaliðinu á stórum köflum í seinni hálfleik. Frábært fumlaust spil, flott sirkusmörk og góð barátta í vörninni, vel gert drengir. Giedrius stóð lengst af í markinu og varði ágætlega en svo kom Einar Ólafur inn og hann lokaði markinu á köflum og það er gaman að sjá hvað hann hefur bætt sig mikið í vetur.
Að hrósa einum leikmanni í svona leik er erfitt en þó verður að segjast að frammistaða Tjörva Þorgeirssonar, sérstaklega í seinni hálfleik, var ótrúleg. Hann virðist hafa þvílíka tilfinningu fyrir spilinu og að senda boltann í sirkusmörkum á hárréttu augnabliki, sem er nefnilega galdurinn við flott sirkusmörk. Þröstur Þráinsson var líka að gera mjög góða hluti og skora falleg mörk úr horninu ásamt því að vera öryggið uppmálað í vítunum.
Víkingar eru gamalt stórveldi í handboltanum, sem maður er vel minntur á þegar maður lítur á veggina í Víkinni, en á einhverjum tímapunkti urðu þeir eftir í uppbyggingu og árangri en eru núna komnir með gamlan jaxl í brúna, Þorberg Aðalsteinsson, og vonandi ná þeir að verða aftur meðal þeirra bestu.
Mörk Hauka: Þröstur Þráinsson 7, Adam Haukur Baumruk 6, Árni Steinn Steinþórsson 5, Einar Pétur Pétursson 5, Þórður Rafn Guðmundsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Elías Már Halldórsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 2, Jónatan Ingi Jónsson 2.
Næstu leikir hjá strákunum verða í deildarbikarnum sem leikinn verður 13. og 14. desember en nánari upplýsingar verða birtar um leið og þær liggja fyrir.
Áfram Haukar!