Gleðilegt ár kæra Haukafólk
Við í meistaraflokki karla í fótboltanum erum byrjaðir á fullu í undirbúning fyrir sumarið. Vorum auðvitað grátlega nærri því að spila í Pepsí en lá ekki fyrir okkur. Við erum hinsvegar reynslunni ríkari og bíðum eftir því að fá tækifæri til að leiðrétta það.
Þær breytingar á hópnum frá því í fyrra er að undirritaður er orðinn aðalþjálfari, Matthías Guðmundsson dáðadrengur verður spilandi aðstoðarþjálfari og Kristján Ómar sér um fysikþáttinn enda fáir jafn öflugir og hann í því.
Sex leikmenn hafa horfið á braut úr hópnum sem endaði mótið á Húsavík. Gummi Sæ, Maggi Palli, Antoníó, Bjöggi, Haffi Briem og svo undirritaður nokkurn veginn. Stór skörð að fylla.
Ungir leikmenn hafa æft og eru reglulega með okkur leikmenn úr 2.flokki. Alltaf sjást nýjir leikmenn inná milli sem æfa í einhvern tíma en ekkert hefur verið skrifað undir við þá. Það er bara í skoðun.
Í nóv og des voru hefðbundnar árstíðaæfingar þar sem markmiðið var að halda sér í formi, fyrirbyggja meiðsl og að sjálfsögðu bæta sig. Þá eru alltaf margir að æfa og mikið af ungum strákum.
Nú í jan hefur fótbolta.net mótið komið sterkt inn bæði hvað varðar að fá leiki, skoða leikmenn, skoða kerfi, skoða menn í mismunandi stöðum og ekki síst að komast inn í hús!
Jan og fram að lengjubikar eru leikmenn að koma sér í grunnstand til að geta spilað fótboltaleik á því tempói sem við viljum. Oft þungir mánuðir sem fara í skapið á mönnum enda aðstæður oft erfiðar. Svo í mars-apríl fer að móta fyrir liðinu sem maður sér fyrir sér spila og þá fer lundin að léttast og menn sjá glitta í mót.
Andinn hefur verið flottur í hópnum sem samanstendur af mörgum mjög skemmtilegum karakterum. Nú er það bara sameiginlegt markmið að reyna koma Haukunum á þann stað í fótboltanum sem ég tel að Haukar eigi að vera, stefna að og ekki sætta sig við neitt annað þ.e. efsta deild. Ég veit að strákarnir eru að leggja mikla vinnu á sig en til að einhver hefð skapist þá þurfa margir þættir að spila inn. Stuðningur áhorfenda, aðstæða ofl sem við getum bætt mikið hér hjá Haukum.
Núna er leikur í fótbolta.net móti á laugardag við Keflavík kl 10 í Reykjaneshöllinni. Leikið um 3 sætið í mótinu. Höfum spilað 3 leiki fyrir. Unnið ÍA og Stjörnuna í fínum leikjum en tapað fyrir ÍBV þar sem við vorum ekki uppá okkar besta.
Standið á hópnum er ágætt, nokkur meiðsl sem menn eru að glíma við en yfirleitt bara fínt stand.
Með kveðju Sigurbjörn Hreiðarsson