Ef einhver skyldi hafa óskað þess að Haukar myndu landa auðveldum sigri gegn Fylki í bikarnum í kvöld þá varð sá hinn sami fyrir miklum vonbrigðum á meðan spennufíklar nutu sín.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en á síðustu mínútunum náðu Haukar þó góðum kafla og þriggja marka forskoti þegar gengið var til búningsklefa, 14 – 11. Síðari hálfleikur var Haukastelpna alveg þar til í stöðunni 24 – 18 þegar allt virtist fara í baklás. Fylkir gekk á lagið og náði að breyta stöðunni í 26 – 26 og komast yfir 26 – 27 þegar aðeins 12 sekúndur voru eftir af leiknum, ótrúlegur viðsnúningur. Haukar tóku þá leikhlé og það var síðan hin magnaða Karen Helga sem skoraði jöfnunarmarkið og grípa þurfti til framlengingar.
Í framlengingunni reyndust Haukar sterkari þrátt fyrir að vera í tvígang einum færri. Sólveig náði að loka markinu og stelpurnar fundu aftur taktinn í sókninni. Frábær sigur í háspennuleik sem manni fannst þó vera unninn en það er gamla sagan að hver leikur er í 60 mínútur. Með þessum sigri tryggðu stelpurnar sér sæti í fjórðungsúrslitunum í Höllinni og þar með möguleika á að spila úrslitaleikinn um Coca Cola bikar kvenna árið 2014.
Til hamingju Haukastelpur og við vonum að sjálfsögðu að þær fái góðan stuðning þegar þær leika í Höllinni.
Mögulegir leiktímar í undanúrslitum:
Fimmtudagur 27. febrúar, kl. 17:00 eða kl. 20:00.
Mörk Hauka: Marija Gedroit 10, Karen Helga Diönudóttir 9, Viktoría Valdimarsdóttir 7, Ragnheiður Ragnarsdóttir 2, Agnes Ósk Egilsdóttir 2, Áróra Eir Pálsdóttir 2, Gunnhildur Pétursdóttir 2.
Næsti leikur í deildinni er útileikur gegn Val en stelpunum gekk vel á móti Val í æfingamóti um jólin þegar þær sigruðu með 5 mörkum og ekki spurning að þær geta endurtekið þann leik með réttu hugarfari og góðri baráttu. Leikurinn verður í Vodafonehöllinni næstkomandi laugardag, 8. febrúar, kl. 13:30.
Áfram Haukar!