Strákarnir okkar í handboltanum halda sínu striki

Þórður Rafn átti fínan leik gegn Akureyri í kvöld og skoraði 4 mörkÍ kvöld tóku Haukar á móti Akureyri í Olísdeild karla. Eins og í síðasta leik gegn ÍR þá virkuðu strákarnir lengi í gang en náðu þó að klára fyrri hálfleik með góðri syrpu og mark á síðustu sekúndunni tryggði þeim 3ja marka forskot í hálfleik, 12 – 9. Í síðari hálfleik voru Haukar alltaf með yfirhöndina og stjórnuðu leiknum en mest varð forystan 22 – 16 þegar 13 mínútur voru eftir af leiknum. Þjálfarateymi Hauka gerði vel í að hreyfa bekkinn mikið er leið á leikinn og lokaniðurstaðan varð góður Haukasigur, 26 – 20.

Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í kvöld með 8/3 en einnig lék Árni Steinn mjög vel og skoraði 7 mörk. Markvarslan var fín en Giedrius stóð vaktina allan tímann og varði alls 16 skot, þar af eitt víti.

Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 8/3, Árni Steinn Steinþórsson 7, Þórður Rafn Guðmundsson 4, Þröstur Þráinsson 2, Elías Már Halldórsson 2, Jónatan Ingi Jónsson 2, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Giedrius Morkunas 16/1 (44%).

Næsti leikur hjá strákunum er stórleikur í Coca Cola bikarnum (8 liða úrslit) á móti Valsmönnum en leikið verður í Vodafonehöllinni. Leikurinn er næstkomandi mánudag kl. 19:30 og er mjög mikilvægt að allir sem geta mæti þar og styðji við bakið á okkar mönnum. Það lið sem vinnur kemst í „final four“ í Höllinni en stelpurnar okkar tryggðu sér einmitt sæti þar fyrr í vikunni.

Áfram Haukar!