8. umferð Olísdeildar karla heldur áfram á morgun og boðið verður upp á stórleik í Schenkerhöllinni þegar lið ÍBV kemur í heimsókn. Þessi lið háðu mikla baráttu um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð sem lauk með dramatískum sigri ÍBV á okkar heimavelli. Bæði lið eru nokkuð breytt frá síðustu leiktíð og í árlegum leik meistarar meistaranna, sem leikinn var fyrir mót, höfðu Haukar betur en leikið var í Eyjum.
Það sem af er móti eru liðin með jafnmörg stig eða 7 alls. ÍBV er í 5. sæti með 3 unna leiki, 1 jafntefli og 3 tapaða. Okkar menn eru sæti neðar með 2 unna leiki, 3 jafntefli og 2 tapaða. Það er ljóst að það verður hart barist um þessi tvö stig sem eru í boði á morgun og skorum við á alla að mæta á völlinn og styðja Hauka til sigurs. Leikurinn hefst kl. 17:00 og mætum í rauðu á pallanna. Það er tilvalið að byrja á því að fara í Kópavoginn fyrst og styðja Haukastelpurnar þar sem þær mæta HK í Digranesi kl. 14:00.
Áfram Haukar!