Skallagrímsmenn með Pétur Ingvarsson í brúnni koma í heimsókn í Schenkerhöllina í kvöld kl. 19:15 og etja kappi við heimamenn í fjórðu umferð Dominosdeildar karla.
Haukastrákarnir hafa byrjað tímabilið og unnið sína fyrstu þrjá leiki nokkuð sannfærandi. Þeir hafa verið að spila á nokkuð mörgum leikmönnum og hefur breiddin verið að skila sterkum sigrum og hafa strákarnir náð að klára andstæðingana í þriðja leikhluta. Leikmenn hafa verið að koma sterkir af bekknum eins og Kristinn Marinósson, Hjálmar Stefánsson, Sigurður Einarsson og Kristján Sverrisson. Kristinn er með 12 stig að meðaltali og 4 fráköst og Hjálmar með 4 stig og 6 fráköst af meðaltali.
Skallagrímsmenn eru með tvo fyrrum Haukamenn í brúnni, en Pétur Ingvarsson og Brynjar Þorsteinsson eru þjálfarar liðsins. Skallagrímsmenn sitja á botni deildarinnar og búnir að tapa þrem fyrstu leikjum sínum en hafa verið nokkuð óheppnir í lokin og hafa t.d. tapað á móti Keflavík og Snæfell heima með minnsta mun eftir að hafa átt góða möguleika á sigri.
Haukastrákar þurfa að koma tilbúnir í þennan leik, ná sigri og halda sér á toppi Dominosdeildar. Ljóst er að Haukarnir þurfa að spila agaðan leik á móti svæðisvörn Skallagrímsmanna og þurfa að láta boltann ganga vel á milli sín og finna góðu skotin.
Nú er bara að mæta snemma, fá sér borgara fyrir leik og hjálpa Haukastrákum að leggja Skallagrímsmenn að velli.