Góður árangur yngri flokka í körfunni

8. fl. kvenna vann sinn riðilYngri flokkar körfunnar hafa staðið sig vel það sem af er vetri og er ljóst að það er mikil gróska í yngri flokka starfi deildarinnar og hefur árangurinn ekki látið á sér standa.

8. flokkur kvenna var að spila í B riðli í Hveragerði um helgina og gerði sér lítið fyrir og unnu alla sína leiki nokkuð örugglega og munu því byrja nýja árið í A riðli. Þetta er í fyrsta skiptið sem þessar stelpur komast í A riðilinn og eru því kominn með eitt af 6 bestu liðum landsins í sínum árgangi.
Stelpurnar voru frábærar alla helgina og var mikið gleði og gaman hjá þeim. Allar stelpurnar í liðinu spiluðu og náðu allar þeim merka áfanga að skora körfu um helgina. Til hamingju stelpur með frábæran árangur.

10. flokkur drengja spilaði í fyrsta sinn í A riðli í byrjun mánaðarins og ljóst er að miklar framfarir eru hjá þessum drengjum en þeir náðu að halda sér í hópi bestu liða, unnu einn en töpuðu þrem leikjum. Allir þrír leikirnir sem töpuðust voru mjög jafnir og hefðu strákarnir með aðeins meiri reynslu úr A riðli getað náð fleiri sigrum og því má búast við þeim öflugum í næsta móti á nýju ári. Þessi flokkur er að miklu leyti strákar úr 9. flokknum en kjarninn samt öflugir drengir úr 10. flokki.

9. flokkur ætlar sér stóra hluti í vetur og ætla sér að gera harða atlögu að íslandsmeistaratitli. Í síðasta fjölliðamóti þá unnu þeir þrjá leiki en töpuðu einum, á móti KR, en KR og Haukar spiluðu úrslitaleik um titilinn í fyrra þar sem þurfti að fjórframlengja til að ná fram íslandsmeistara en því miður fyrir okkar stráka þá voru það KRingar sem unnu þann stóra síðasta vetur.

9 og 10 flokkur stúlkna unnu sig aftur upp í A riðil eftir að báðir flokkar höfðu fallið úr A riðli í fyrsta mótinu. 9. flokkur spilaði í Stykkishólmi og burstuðu alla sína leiki en það sama gerði 10 flokkur. Þær spiliðu í Hveragerði og unnu alla leiki með yfir 30 stigum.

8. flokkur drengja spilaði í fyrsta sinn í A riðli og gerðu sér lítið fyrir og náðu að halda sér uppi í A riðli en þeir sigruðu Njarðvík í leik um fallið niður í B riðil. Strákarnir hafa sýnt miklar framfarir í vetur og það er töluvert afrek að ná að halda sér uppi í A riðli í fyrstu atrennu. Munurinn á A og B riðli er alltaf nokkur og er varnarleikur liðanna í A riðli mun harðari en í hinum riðlunum.

mb. 11 ára stúlkna spila í C riðli en þær eru flestar 10 ára og spila því upp fyrir sig. Þær hafa staðið sig mjög vel og má búast við því að þessar stelpur verði öflugar á næsta ári í þessum sama flokki.

mbl. 11. ára drengja spilar í C riðli og unnu tvo leiki en töpuðu tveim og náðu því ekki að komast upp í B riðil. Nú er bara að æfa vel fyrir næsta mót og setja stefnuna upp í B riðil á nýju ári.

7. flokkur drengja er í C riðli og mun spila um næstu helgi á Egilstöðum og þar er stefnan sett upp í B riðil en þar eru nokkrir mjög efnilegir leikmenn en flokkurinn er því miður nokkuð fámennur og hefur það háð honum það sem af er vetri.

Drengja- og unglingaflokkur er sami flokkurinn og er borinn upp af ungum leikmönnum sem eru að spila stórt hlutverk í mfl. félagsins. Það hefur því verið þannig að unglingaflokkur hefur verið spilaður af yngri drengjum af mestu leyti. Drengjaflokkurinn er ríkjandi íslandsmeistari og þeir eru á góðu róli og ætla sér að verja titilinn á þessu ári. Drengjaflokkur vann um síðustu helgi KR hér á Ásvöllum með 20 stigum í 16 liða úrslitum bikars og er stefnan sett á tvöfaldan sigur í vetur.

11. flokkur drengja hefur verið í smá basli í upphafi vetrar en hafa smátt og smátt verið að stíga upp og má búast við þeim sterkum eftir áramót.

Stúlknaflokkur ætlar sér líka stóra hluti í vetur en þar eru stelpur sem eru meginuppistaða mfl. kvenna. Þær hafa verið að spila nokkuð vel og ljóst að Keflavík og Haukar munu berjast um stóru titlana í vetur. 

Unglingaflokkur kvenna spilar ekki í íslandsmótinu þar sem þær eru að spila í mfl. og var talið að álagið yrði of mikið. Þær munu samt keppa í bikarnum og þar er stefnan sett á titilinn.