Ræða Formanns Hauka á viðurkenningahátíð Hauka
Kæru Haukamenn gleðilega hátíð!
Áður en viðurkenningahátíð Hauka hefst vil ég minnast mikils Haukamanns Lofts Eyjólfssonar sem lést í gærmorgun. Loftur var á sínum yngri árum öflugur knattspyrnumaður og mikill markaskorari fyrir Hauka. Hann verður stjórnarmaður í knattspyrnudeild 1980 og síðan formaður 1985 – 87. Hann sat í aðalstjórn félagsins frá 1992 til 2004 og sem varaformaður frá 1994 – 2002. Loftur átti sæti í stjórn ÍBH í nokkur ár. Vil ég biðja alla um að rísa úr sætum og minnast Lofts og votta fjölskyldu hans samúðar á þessum erfiðu tímum með hálfrar mínútu þögn.
Okkar árlega viðurkenningahátíð sem haldinn er á gamlársdag ár hvert er hér með sett. Viðurkenningahátíð Hauka þar sem besta íþróttafólk okkar og þjálfarar fá viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur hefur vaxið verulega að umfangi síðustu ár sérstaklega eftir að byrjað var að veita landsliðsmönnum Hauka og þeim leikmönnum sem valdir voru á árinu til að taka þátt í landsliðsverkefnum viðurkenningar. Fyrst þegar viðurkenningar fyrir þátttöku í landsliðsverkefnum var veitt fyrir 4 árum síðan voru um 50 leikmenn Hauka sem fengu viðurkenningu fyrir að taka þátt í landsliðsverkefnum á árinu. Í fyrra var sett nýtt glæsilegt met þegar 78 leikmenn og iðkenndur Hauka fengu þessa viðurkenningu. Við forystumenn Hauka töldum líklegt á viðurkenningahátíðinni í fyrra að toppnum væri náð hvað þennan fjölda varðar.
Í ár verður sett nýtt og glæsilegt met sem við í forystu Hauka erum afskaplega ánægðir með, met sem kemur okkur ánægjulega á óvart en sýnir okkur greinilega að starf góðra þjálfara okkar er að skila afburða íþróttafólki til félagsins. Haukar eru mjög stoltir og ánægðir með að geta veitt öllu þessu efnilega og glæsilega íþróttafólki viðurkenningu. Þeir sem fá viðurkenningu fyrir að hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á þessu ári frá Haukum eru alls 113, já ég endurtek 113 leikmenn og iðkenndur Hauka fá viðurkenningu í ár að auki eru 3 norðurlandameistarar í körfu U16 stelpna og 2 strákar sem unnu til verðlauna með landsliði U15 í knattspyrnu á Ólympíuleikum.Er ekki rétta klappa fyrir þessum glæsilega hópi og þjálfurum þeirra?
Glæsilegur árangur sem þessi næst ekki nema að aðstaða sé góð til að stunda íþróttir hjá Haukum. Í mörg ár hefur legið fyrir að aðstaða okkar Hauka hér að Ásvöllum er fyrir löngu sprungin þar sem m.a. alltof margar æfingar falla niður vegna þess gríðar mikla leikjaálags sem er í okkar góða íþróttahúsi. Þá er fyrir nokkru komið að endurnýjun á gervigrasi og nauðsynlegum endurbótum á knattspyrnuvelli Hauka. Nú stuttu fyrir jól var samþykkt af Hafnarfjarðarbæ að setja að nýju í gang framkvæmdanefnd um uppbyggingu Ásvalla þar sem fyrstu verk nefndarinnar verða endurnýjun á gervigrasi og bygging á nýjum íþróttasal sem mun verða kenndur við Ólaf okkar Rafnsson fyrrum forseta ÍSÍ. Haukar fagna mjög samþykkt bæjaryfirvalda.
Árangur sem þessi næst ekki nema að allir leggist á eitt, starfsmenn, þjálfarar, sjálfboðaliðar, stuðningsmenn og foreldrar við að styðja við starf Hauka. Gríðarlegt sjálfboðaliðastarf er unnið í stjórnum og ráðum deilda Hauka sem mjög langt mál er að fara í gegnum. Einn er þó sá hópur ég vil nefna sérstakleg sem lítið fer fyrir en vinnur gríðarlega mikilvæga vinnu nánast daglega á vorin og haustin en þetta er 20 til 30 manna lávarða sveit sem keyrir bílaleigubíla fyrir Hauka í sjálfboðavinnu milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Þeir fluttu á þessu ári vel á annað þúsund bíla sem gefa Haukum verulegar tekjur til félagsins. Vil ég þakka þessum heiðursmönnum fyrir gott starf og vonast Haukar til að geta leitað til lávarðanna um ókominn ár.
Við forsvarsmenn Hauka förum bjartsýnir inn í komandi ár þar sem við væntum góðs árangurs hjá okkar ungu og bráðefnilegu meistaraflokksliðum sem öll eru borinn uppi af leikmönnum sem aldir eru upp innan raða Hauka. Með allan þennan efnivið sem viðurkenningu fær hér í dag þá þarf ekki að kvíða fyrir framtíð Hauka.
Áður en ég gef stjórnina á viðurkenningahátíðinni til hans Didda okkar þá hefur nú verið opnuð ný heimasíða Hauka en undanfarna mánuði hefur staðið yfir vinna við að endurhanna heimasíðu Hauka í nýju og betra vefhönnunarumhverfi sem uppfyllir alla nýjustu tækni. Tæknimenn okkar Hauka þeir Garðar, Baldur Óli og Andri Már sem hér eru hafa unnið hörðum höndum að því að hanna kerfið og vil ég nota tækifærið þakka þeim félögum fyrir frábæra vinnu.
Áfram Haukar