Á morgun, þriðjudag, taka stelpurnar okkar í handboltanum á móti liði Selfoss í Coca Cola bikarnum. Leikurinn hefst kl. 19:30 í Schenkerhöllinni. Það lið sem sigrar tryggir sér þátttöku í Final 4 í Höllinni í lok mánaðarins. Strákarnir hafa þegar tryggt sér þátttökurétt og nú er komið að stelpunum. Þeir sem komast ekki á leikinn geta séð hann á Hauka TV, slóðin er: http://tv.haukar.is/
Í deildinni hafa Haukar og Selfoss tvisvar mæst á tímabilinu og hafa okkar stelpur haft sigur í báðum þeim viðureignum, í Schenkerhöllinni 25-19 og á Selfossi 23-27. Bikarinn er auðvitað önnur keppni þar sem allt getur gerst. Okkar konur hafa verið á miklu skriði undanfarið og unnið sjö af síðustu átta leikjum sínum.
Það er engin spurning að Selfossliðið mun mæta í Schenkerhöllina til að freista þess að koma á óvart og von er á góðri mætingu hjá stuðningsmönnum þeirra. Haukafólk verður að fjölmenna og vera tilbúið að láta vel í sér heyra á pöllunum og styðja okkar stelpur til sigurs!
Áfram Haukar!