
Þorgeir Haraldsson
Þessa dagana eru tímamót í mínum huga hjá okkur í handboltanum, bæði karla – og kvennaliðið okkar hafa tryggt sér farseðil í Höllina í Final 4 í Coka Cola bikarnum og verður því tvöföld bikarskemmtun hjá okkur dagana 26. – 28. febrúar n.k, Haukadagar í Höllinni. Við munum gera allt til að gera þessa daga eftirminnilega fyrir okkur og börnin okkar og vona ég að þið takið þessa daga frá og takið með okkur þátt í að skapa öfluga stemmingu þannig að liðin okkar nái að tryggja sér réttinn til að leika til úrslita á lokadegi. Auglýsingar og kynning á dagskrá okkar á Ásvöllum þessa daga verður birt á heimasíðu Hauka og öðrum miðlum mjög fljótlega. Einhverjir yngri flokkar eiga einnig möguleika á að tryggja sér sæti í Höllinni en úrslit þeirra eru leikin sunnudaginn 1. mars.
Á morgun mánudag, 16. febrúar, hefst 3. umferð í Olísdeild karla og fáum við lið ÍR í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 19:30. Síðan liggur leiðin í Mosfellsbæ á fimmtudaginn 19. febrúar þar sem við mætum Aftureldingu.
Liðið okkar hefur verið að bæta sinn leik undanfarið og kemur vel undan keppnishléi. Drengirnir hafa æft vel og er engin ásæða til að gera ráð fyrir öðru en að við eigum eftir að ná góðu sæti í deildinni fyrir úrslitakeppnina. Liðið okkar hefur átt góðu gengi að fagna síðustu ár og erum við Haukamenn því ekki vön að liðið okkar sé ekki í hærra sæti í deildinni en raun ber vitni og eru eflaust fyrir því margar ástæður, miklar leikmannabreytingar milli ára og meiðsli hafa sett strik í reikninginn. Það breytir ekki því að leikmenn og þjálfarar gera miklar kröfur til sjálfs sín og legg ég áherslu á að við stuðningsmenn Hauka gerum það einnig en stöndum jafnframt við bakið á okkar liðum þótt á móti blási á stundum. Við verðum að mæta vel á leikina sem eftir eru hjá bæði kvenna – og karlaliði okkar það sem eftir lifir vetrar og stuðla að því að liðin okkar nái heimaleikjarétti í úrslitakeppninni.
Kvennaliðið er í harðri keppni um 4. sætið við ÍBV og á mikilvægan leik í Eyjum nú á þriðjudaginn. Karlaliðið hefur einsett sér að selja sig dýrt í þeim 9 leikjum sem eru í 3. og síðustu umferðinni.
Það er mjög mikilvægt að hinn almenni Haukamaður geri sér grein fyrir því hve aðstöðuleysi er farið að há okkur á Ásvöllum þar sem dregist hefur úr hófi að hefja byggingu viðbótaríþróttsalar sem er fullhannaður og grunnur var gerður fyrir að fyrir hrun. Það líður vart það kvöld að ekki þurfi að fella niður æfingar hjá yngri flokkum og meistaraflokkum í handbolta og körfubolta af þeirri ástæðu einni að við erum með afrekslið í handbolta og körfu bæði karla og kvenna sem leika í efstu deild. Þessi staða okkar er algerlega óþolandi og leggja forystumenn félagsins þunga áherslu á við bæjaryfirvöld að hafist verði handa við framkvæmdir strax í vor. Þá er aðstaða knattspyrnu-deildarinnar, sérstaklega til vetrariðkunar, óboðleg af sömu ástæðum og kominn tími til aðgerða við uppbyggingu mannvirkja fyrir knattspyrnuiðkunar. Hrópandi munur er á aðstöðu okkar og okkar aðal samkeppnisaðila hér í bæ
sem kemur fram í þeirri staðreynd að deildir Hauka geta boðið sínum iðkendum umtalsvert verri aðstöðu og færri æfingatíma og er þar um mikla mismunun að ræða sem ráðamenn Hafnarfjarðarbæjar verða að viðurkenna og koma á jafnræði til handa íbúum, hvort sem þeir búa í suður- eða vesturbæ, og búa þannig í haginn að foreldrar geti valið að börnin fari í Hauka og fái þar aðstöðu til jafns við aðra.
Með Haukakveðju,
Þorgeir Haraldsson
Formaður handknattleiksdeildar Hauka