
Viktoría Valdimarsdóttir verður lengi frá vegna meiðsla sem hún hlaut í leiknum gegn ÍBV í vikunni, mikil blóðtaka fyrir Haukaliðið.
Á morgun, laugardag, heldur Olísdeild kvenna áfram hjá Haukastelpum þegar þær frá lið HK í heimsókn í Schenkerhöllina, leikurinn hefst kl. 16:00. Þær gerðu góða ferð til Vestmannaeyja í vikunni og sigruðu lið ÍBV með einu marki, 27-28 (14-13). Það skyggði á sigurgleðina að Viktoría Valdimarsdóttir meiddist í leiknum og nú er ljóst að meiðsli hennar eru alvarleg. Hún fór í röntgen og segulómun í gær og þá kom í ljós slitið krossband ásamt fleiri áverkum svo sem beinmar og áverka á brjóski. Hún fer strax í spelku í 6 vikur frá nára eða þangað til hún fer í aðgerð. Það er ljóst að það verður töluverð bið í að við sjáum þessa flottu handboltakonu aftur á vellinum eða eins og faðir hennar orðaði það „sjáumst á vellinum 2016“. Þetta er mikil blóðtaka fyrir liðið en Viktoría er búin að vera leika vel í vetur, bæði í vörn og sókn.
Nú sem endranær verður Haukafólk að styðja við bakið á liðinu og mæta með góða skapið á pallana og láta vel í sér heyra.
Áfram Haukar!