Um næstu helgi fer fram svokölluð Final 4 helgi í Coca Cola bikarnum. Annað árið í röð státa Haukar af því að vera með bæði liðin sín í undanúrslitum. Stelpurnar ríða á vaðið á fimmtudeginum og mæta ríkjandi bikarmeisturum Vals. Í fyrra spiluðu þær einnig gegn Val í undanúrslitum og töpuðu þá 21-25 (8-13). Valur vann svo Stjörnuna örugglega í úrslitaleiknum. En nú er nýtt ár og það er deginum ljósara að Haukastelpur eru sterkari en í fyrra og Valskonur ekki eins sterkar enda er staða liðanna í deildinni þannig að Haukar eru í 4. sæti með 22 stig og Valur í því 7. með 16 stig. En bikarleikir koma oft á óvart og því þurfa stelpurnar á góðum stuðningi að halda frá áhorfendum. Leikurinn fer fram í Höllinni fimmtudaginn 26. febrúar kl. 17:15.
Í undanúrslitum drógust strákarnir gegn Íslandsmeisturum ÍBV sem þýðir að ríkjandi bikarmeistarar og ríkjandi Íslandsmeistarar eru að fara eigast við. Þessi lið börðust um Íslandsmeistaratitilinn sl. vor og þá hafði ÍBV betur í dramtatískum úrslitaleik í Schenkerhöllinni. Í vetur hafa liðin mæst tvisvar í deildinni. ÍBV vann á Ásvöllum í október og Haukar unnu í Eyjum nú í febrúar. Það er ljóst að þetta eru tvö áþekk lið og er staða þeirra í deildinni svipuð, Haukar í 5. sæti með 19 stig og ÍBV í 6. sætinum með 18 stig.
Leikur liðanna fer fram í Höllinni föstudaginn 27. febrúar kl. 20:00. Við þekkjum þann stuðning, sælla minninga (eða ekki), sem fylgir ÍBV liðinu og því þurfum við að þjappa okkur saman og mæta með góða skapið og baráttuna á pallana og styðja strákana til sigurs.
ATH: miðasala á leikina hefst á morgun á Ásvöllum og það er mikið atriðið að fólk kaupi miða hjá okkur því þær tekjur renna beint til Hauka. Tekjur af miðum keyptum í Höllinni renna sem sagt EKKI til Hauka, þetta á við á bæði karla – og kvennamegin. Forsalan hefst á Ásvöllum á morgun kl. 15:00 og stendur fram að leikjum á meðan afgreiðslan er opin en miðamagn okkar er takmarkað, tryggið ykkur því miða í tíma. Miðaverð á stakan leik er kr. 1.500 fyrir fullorðan og kr. 500 fyrir börn (6-15 ára). Við bjóðum fólki að fá afslátt ef keypt er á báða leikina þá greiðir fólk kr. 2.500 fyrir fullorðna og kr. 500 fyrir börn (6-15 ára).
Svona var stemmningin fyrir leikina í fyrra:
Áfram Haukar!