Stúlknaflokkur bikarmeistari

stúlknaflokkur bikarmeistari 2015Stúlknaflokkur sigraði Keflavík í hörku leik í Laugardalshöllinni í kvöld og landaði þar með fyrsta titlinum um helgina. Haukar eiga fjögur lið í viðbót sem munu spila á laugardag og sunnudag.

Stelpurnar spiluðu mjög vel og var baráttan í liðinu frábær. Allar stelpurnar lögðu sig fram í vörninni og hirtu alla lausa bolta sem voru í boði og börðust gríðarlega vel í fráköstum. Haukarnir náðu fljótlega forystu og voru að sækja vel á körfuna. Sylvía og Þóra voru að fara fyrir liðinu í sókninni og áttu Keflvíkingar í miklum vandræðum með þær. Haukastelpurnar leiddu allan leikinn og var forystan yfirleitt á milli 8-15 stig en Keflvíkingar settu pressu á Haukaliðið í lokin og náðu að minnka muninn í 4 stig en stelpurnar stóðust pressuna og lönduðu sætum sigri.

Inga Rún spilaði ekki í kvöld þar sem hún sleit krossband í hné fyrir stuttu og var ljóst að það veikti Haukaliðið mikið í kringum teiginn. Hanna Þráins steig upp í þessum leik og spilaði gríðarlega vel. Það var einstakt að horfa á baráttuna í kvöld, Dýrfinna snéri sig í II leikhluta en sýndi mikla baráttu og hélt áfram eftir aðhlynningu og svo meiddist Sylvía á fingri undir lok II. leikhluta og spilaði ekki neitt í III. leikhluta á meðan verið var að búa um fingurinn. Hún kom sterk inn í lokahlutanum og sýndi ótrúlega ósérhlýfni.

Allt Haukaliðið spilaði vel í kvöld.  Þóra Kristín Jónsdóttir stjórnaði liðinu einstaklega vel og var nálægt þrefaldri tvennu í leiknum. Þóra var valinn besti leikmaður leiksins (MVP).

Hægt er að sjá nánari umfjöllun á karfan.is

Til hamingju með bikarmeistaratitilinn stúlknaflokkur.

Á laugardagsmorgun kl. 9:30 spilar 10 flokkur á móti KR og kl. 19:00 spilar drengjaflokkur á móti Tindastól. Á sunnudaginn spilar 9. flokkur drengja á móti Stjörnunni kl. 10:00 og svo lýkur helginni fyriri okkur Haukamenn með leik hjá unglingaflokki kvenna á móti Keflavík.