Þriðji bikarmeistaratitill Haukann bættist við í morgun er 9. flokkur drengja sigraði Stjörnuna í miklum skotleik í Höllinni.
Flestir strákarnir í þessum flokki spila líka stórt hlutverk í 10. flokki sem tapaði í gær á móti KR. Ljóst var að þeir ætluðu ekki að láta það henda aftur og byrjuðu af miklum krafti. Stjörnumenn eru með ungt lið en þeir eru flestir í 9. flokki og eru með léttleikandi og fljótt lið og þeir ætluðu ekki að láta Haukana fá neitt frítt í þessum leik.
Jafnt var eftir fyrsta leikhluta 10-10 og í hálfleik leiddu Stjörnumenn með einu stígi, 40-41. Haukarnir voru þó mun sterkari í fráköstum og þurftu Stjörnumenn að reiða sig mikið á 3ja stiga skot, sem þeir voru að hitta vel úr, en ljóst er að þegar á leikinn myndi líða þá yrði það erfitt fyrir Stjörnumenn að treysta eingöngu á lang skot.
Í 3ja leikhluta þá byrjuðu Haukarnir að ná upp forskoti en með ævintýralegri 3ja stiga sýningu þá náðu Stjörnumenn að halda sér inní leiknum. Þeir voru að hitta úr skotum rétt komnir inn fyrir miðju en Haukarnir héldu haus og skipulagi og létu þetta ekki brjóta sig niður.
Með sterkri vörn og góðum fráköstum þá héldu Haukarnir áfram að hamra jánrið og byggðu upp forskotið jafnt og þétt og enduðu á því að vinna sanngjarnan 16 stiga sigur, 72-56.
Hilmar Pétursson var valinn maður leiksins í leikslok.
Við óskum strákunum til hamingju með bikarmeistarartitilinn.
Hægt er að sjá nánari umfjöllun á karfan.is