Strákarnir í handboltanum kláraðu deildarkeppnina með sigri

Adam Baumruk 2013

Adam Haukur Baumruk gerði 5 mörk gegn HK í gær.

Í gærkvöldi var leikin lokaumferð Olísdeildar karla og fengu okkar menn botnlið HK í heimsókn. Jafnræði var með liðunum í byrjun og áttu Haukapiltar í mestu erfiðleikum með að hrista baráttuglaða HK inga af sér en staðan í hálfleik var 11-10. Seinni hálfleikur var aðeins kaflaskiptur. Í stöðunni 17-14 héldu menn að Haukar myndu loksins stinga gestina af en svo var ekki því að á 43. mínútu voru HK menn búnir að jafna 18-18 og á 51. mínútu var staðan enn jöfn 21-21 en þá kom góður kafli hjá okkar mönnum og lokatölur leiksins urðu 29-23.

Markahæstur Haukamanna var Adam Haukur með 5 mörk og Giedrius varði 16/1 skot sem gerir 41% markvörslu. Enn á ný fóru víti í súginn en okkar menn náðu ekki að nýta 2 af 4 vítum leiksins en vítanýtingin undanfarið er áhyggjuefni.

Eins og stundum í vetur þá virtist liðið leika á köflum á getu en duttu síðan stundum niður í klaufamistök og andleysi en það er ljóst að það býr mikið í liðinu þegar það leikur af fullri getu. Núna bíður strákana það erfiða verkefni að eiga við nágranna sína úr FH í 8 liða úrslitum þar sem FH á heimaleikjaréttinn.

Lokaniðurstaða vetrarins er sem sagt 5. sætið í Olísdeildinni. Af 27 leikjum þá unnust 11, 6 enduðu með jafntefli og 10 töpuðust. Markatalan er 41 mark í plús. Strákarnir fengu á sig 633 mörk en aðeins Afturelding fékk færri á sig eða 623 en topplið Vals fékk t.d. 636 á sig.

Áfram Haukar!