Unglingaflokkur drengja bikarmeistari eftir ævintýralegan úrslitaleik í Höllinni

haukarbikarmeistarar2016uflkarlajboUnglingaflokkur spilaði í gærkvöld til úrslita í Powerade bikarkeppni KKÍ á móti Grindavík og hafði ótrúlegan sigur eftir framlengdan spennuþriller.

Þessi tvö lið hafa háð harða baráttu upp alla yngri flokka og hafa oft mæst í úrslitaleikjum og því var búist við hörku slag, sem varð raunin.

Haukarnir mættu ekki til leiks í fyrri hálfleik og spiluðu afar illa á báðum endum vallarins, varnarleikurinn var hræðilegur og sóknin ekki skömminni skárri. Það verður þó ekki tekið af Grindvíkingum að þeir spiluðu stórkostlegan sóknarleik og bombuðu niður hverjum þristinum á eftir öðrum og Haukarnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð.
Í hálfleik var staðan 59 – 33 fyrir Grindavík og stuðningsmenn Hauka voru flestir búnir að gefast upp, enda ekki neitt í spilunum um að Haukar ættu möguleika í þessum leik.

Annað kom á daginn og mættu ákveðnir Haukar til leiks í þriðja leikhluta. Með stífri pressuvörn allan völlinn og svo skipst á að spila svæði og maður á mann náðu Haukarnir að riðla sóknarleik Grindvíkinga og setja mikla pressu á þá. Haukar unnu þriðja leikhluta 23-13 en munurinn var samt 16 stig og því ljóst að meira þurfti til.
Strákarnir byrjuðu fjórða leikhluta mjög öflugt og náu 9-0 áhlaupi og munurinn því kominn undir 10 stig og pressan orðin gríðaleg á Grindvíkingum. Smátt og smátt minnkaði munurinn og náðu strákarnir að jafna 75-75 og allt að verða vitlaust í Höllinni. Haukarnir héldu pressunni áfram og náðu að komast yfir og ná góðri forystu, 79-75 og um 1 min. eftir en þá var þreytan orðin töluverð og Grindvíkingar náðu að jafna og knýja fram framlengingu, 79-79.
Framlengingin var gríðarlega spennandi en Haukar náðu að knýja fram ævintýralegan sigur, 88-86 og fögnuður strákanna og áhorfenda var gríðarlegur í lokin, en enginn hafði búist við þvi að þetta væri möguleiki í hálfleik.

Stórkostlegur sigur hjá strákunum og uppskeran tveir titlar á sunnudeginum. Framtíðin björt hjá kkd og óskum við þeim til hamingju með þennan glæsilega árangur.