Eins og komið hefur fram áður þá verður mikið um að vera hjá meistaraflokkum Hauka í handbolta í þessari viku, þegar bæði karla og kvenna liðin taka bæði í þátt í Final 4 Coca-Cola bikarsins. Kvennaliðið ríður á vaðið á fimmtudaginn kl. 19:30 þegar þær mæta Gróttu og svo á föstudaginn mæta karlarnir mæta Val kl. 17:15 en báðir leikirnir fara fram í Laugardalshöllinni.
Í tilefni af þessum leikjum þá fékk heimasíðan hornamanninn Einar Pétur Pétursson í stutt spjall um leikinn og aðdraganda hans.
Nú er langt gengið á tímabilið hjá ykkur og staðan er 1. sæti í deildinni, Deildarbikarmeistrar og Final 4 í bikarnum. Ertu sáttur með frammistöðu liðsins og er hún í takti við þær væntingar sem þið höfðuð fyrir tímabilið?
“Já mjög sáttur með gengi liðsins heilt yfir, erum búnir að vinna marga góða sigra í deildinni það sem af er. Fyrri hluti tímabilsins var skemmtilegur, fengum skemmtileg verkefni í evrópukeppninni þar sem við fengum að takast á við 3 sterk lið. Einnig var gott að geta lokað árinu með sigri í deildarbikarnum. Já ég held að frammistaðan sé í takt við þær væntingar sem gerðar voru til liðsins, enda hafa ekki verið stórar breytingar á liðinu fyrir tímabilið.”
Núna eru úrslitin í bikarnum framundan hvernig leggst það í þig og restina af Haukaliðinu?
“Það leggst vel í okkur, spennandi vika framundan þar sem við fáum að hvíla okkur frá deildinni og spila í bikarnum. Þótt undirbúningurinn verður svipaður og venjulega, þá er alltaf sérstakt að fá að taka þátt í þessari helgi.”
Leikurinn sem er framundan í undanúrslitum er toppslagur gegn Val og er það 4. viðureign liðanna á tímabilinu og Haukar unnið allar hingað til. Er ekki hægt að segja að Haukar séu með smá tak á Valsm-nnum og skiptir það einhverju máli að hafa unnið allar þessar viðureignir þegar í undanúrslit bikarsins er komið?
“Það skiptir engu máli, hvorki fyrir okkur né Val. Okkur hefur gengið vel á móti Val í vetur, kannski er það vegna þess að þeir hafa verið með nokkra menn í meiðslum og núna eru þeir fullmannaðir.”
Hvernig leikur verður þetta? Má búast við að þessi leikur verði eins og deildarleikir liðanna eða er það öðruvísi þegar bikarúrslit eru í húfi?
“Held að það verða mikil gæði í þessum leik þar sem vörn og markvarsla liðana verða frábær. Leikur þar sem úrslitin munu ráðast í lokasókninni.”
Nú hafa Haukar farið nokkurum sinnum í úrslit bikarins og þar á meðal þú. Er sú reynsla ekki mikilvæg þegar að út í svona leik er komið?
“Jú held að það muni hjálpa liðinu mikið. Sennilega flestir sem hafa spilað í höllinni hjá okkur og það oftar en einu sinni.”
Það hlýtur að vera smá hungur í liðinu að gera vel í bikarnum þetta árið eftir að hafa unnið hann árið 2014 en svo dottið út í undanúrlitum á slæman hátt í fyrra?
“Jú auðvitað er mikið hungur í að vinna, þetta var frekar súrt tap í fyrra og yrði draumur að fá að bæta það upp í ár. Sömuleiðis er hungrið hjá Valsmönnum meira ef eitthvað er, þar sem þeir töpuðu eftir framlengingu í fyrra.”
Nú eruði í efsta sæti í deildinni og unnuð deidarbikarinn. Setur það ekki meiri pressu á ykkur?
“Jú sennilega, en við erum vanir að vera í þessari stöðu svo það mun ekki trufla okkur neitt.”
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
“Vonandi að fólk fjölmenni í höllina bæði á fimmtudaginn og föstudaginn”
Fyrir leikina verður mikið um að vera í Schenkerhöllinni en fyrir kvennaleikinn sem hefst 19:30 þá hefst fjörið í Schenkerhöllinni kl. 17.30 þar sem boðið verður upp á andlitsmálun og þess háttar og einnig getur fólk fengið sér léttar veitingar. Svo verður boðið upp á rútuferðir frá Schenkerhöllinni í Laugardalshöll kl. 18:30 og til baka að leik loknum. Fyrir karlaleikinn sem hefst 17:15 verður það sama upp á teningnum en rúturnar fara kl. 16:15 í Laugardalshöllina og til baka að leik loknum.
Miðasala verður í Schenkerhöllinni alla daga fram að leik í afgreiðslunni. Einnig er hægt á nálgast miða á kvennaleikinn hér og svo á karlaleikinn má nálgast miða hér.
Mætum svo öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!