Nú er komið að strákunum – Gunnar þjálfari í léttu spjalli

Gunnar þjálfari situr fyrir svörum.

Gunnar þjálfari situr fyrir svörum.

Eins og komið hefur fram áður þá verður mikið um að vera hjá meistaraflokkum Hauka í handbolta í þessari viku, þegar bæði karla og kvenna liðin taka bæði í þátt í Final 4 Coca-Cola bikarsins. Ekki gekk það hjá stelpunum í kvöld þar sem þær töpuðu með einu marki eftir hetjulega baráttu í tvíframlengdum leik. En morgun eru karlarnir klárir í slaginn að sjá til þess að Haukar fái þó einn úrslitaleik, þegar þeir mæta Val kl. 17:15 einnig í Laugardalshöllinni.

Í tilefni af þessum leik þá fékk heimasíðan þjálfara liðsins Gunnar Magnússon í stutt spjall um leikinn og aðdraganda hans.

Jæja Gunnar nú byrjaðir þú að þjálfa hjá Haukum fyrir þetta tímabil. Hvernig hefur það verið?

“Tímibilið er búið vera mjög gott hingað til. Ég hef verið ánægður með spilamennskuna hjá okkur og mér finnst við vera að bæta okkur jafnt og þétt. Framundan eru mikilvægustu mánuðurnir og við þurfum að halda áfram á sömu braut.”

Nú hefur þú verið hjá nokkrum félögum á Íslandi og erlendis hvernig eru Haukar í samanburði við þau lið?

“Umgjörðin og umhverfið er frábært hjá Haukunum og ekki sanngjarnt að bera það saman við önnur lið. Mér hefur liðið mjög vel hjá Haukunum og það er virkilega gaman að vinna með strákunum og öllu þessu fólki sem starfar í kringum klúbbinn.”

Nú er langt gengið á tímabilið hjá strákunum og staðan er 1. sæti í deildinni, Deildarbikarmeistrar og Final 4 í bikarnum. Ertu sáttur með frammistöðu liðsins og er hún í takti við þær væntingar sem þið höfðuð fyrir tímabilið?

“Já, ég get ekki annað en verið sáttur, við höfum aðeins tapað 3 leikjum þar sem úrslitin réðust í öllum tilfellum á síðustu sekúndunum. Svo má ekki gleyma því að við vorum einum leik frá því að komast í riðlakeppni Evrópu. Þannig að ég get ekki annað en verið sáttur en eins og áður segir þá eru mikilvægustu mánuðurnir framundan.”

Nú var mikið um leiki hjá liðinu fyrir áramót vegna góðs árangurs í EHF-bikarnum, er nokkuð komin þreyta í mannskapinn?

“Nei alls ekki. Við höfum virkilega gaman að því sem við erum að gera og strákarnir eru mjög ferskir og í topp standi.”

Nú hefur þú einnig verið að þjálfa hjá íslenska landsliðinu hvernig hefur það gengið að tvinna þessi tvö störf saman? Kemur það nokkuð niðrá öðru hvoru liðinu?

“Það hefur gengið mjög vel að tvinna þessu saman. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að hafa góða aðstoðarmann og Einar Jóns hélt vel utan um þetta á meðan ég hef verið í burtu.”

Núna eru úrslitin í bikarnum framundan hvernig leggst það í þig og restina af Haukaliðinu?

“Helgin leggst vel í mig og alla í liðinu. Ég finn fyrir að það er mikið hungur hjá strákunum að sækja bikarinn aftur heim. Þeir muna allir eftir því hvernig þetta fór í fyrra og þeir eru staðráðnir í því að sækja þessa dollu. Þeir eru jú Íslandsmeistarar í dag og á laugardaginn geta þeir verið Íslands- og Bikarmeistarar.”

Hvernig er staðan á liðinu fyrir þessa bikarhelgi?

“Hún gæti ekki verið betri. Það eru allir heilir og í toppstandi. Við mætum til leiks fullir sjálfstrausts enda búnir að spila vel undanfarið. Við gerum okkur samt grein fyrir því að verkefni er gríðarlega erfitt og við þurfum virkilega að sýna úr hverju við erum gerðir til að klára þetta.”

Leikurinn sem er framundan í undanúrslitum er toppslagur gegn Val og er það 4. viðureign liðanna á tímabilinu og Haukar unnið allar hingað til. Er ekki hægt að segja að Haukar séu með smá tak á Valsm-nnum og skiptir það einhverju máli að hafa unnið allar þessar viðureignir þegar í undan úrslit bikarsins er komið?

“Það má segja að það hafi gengið vel undanfarið á móti Val. Við höfum að sjálfsögðu fulla trú á að við getum unnið þá aftur. Þegar leikurinn byrjar þá snýst þetta um hvort liðið nær betri leik í 60 mín, annað telur ekki. Valsmenn eru með gott lið og góðan mannskap og við þurfum að spila mjög vel til að leggja þá á velli.“

Hvernig ætlið þig að fara af því að vinna Valsmenn enn einu sinni?

“Við ætlum að fara saman sem ein stór liðsheild, þetta stendur ekki og fellur með einhverjum einstaklingum hjá okkur. Liðsheildin þarf að vera í lagi og það þurfa allir að leggja í púkkið. Það er það sem gerir Haukaliðið svona sterkt að við erum ein stór heild. Við vitum það lika að við verðum ekki einir að þessu sinni við verðum með fjölmennan stuðningsmannahóp á pöllunum sem verður með okkur í þessu erfiða verkefni.”

Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

“Ég vill að sálfsögðu nota tækifærið og hvetja alla Haukamenn til að mæta og styðja okkur alla leið!”

Fyrir leikinn verður mikið um að vera í Schenkerhöllinni en þar er boðið upp á andlitsmálun og þess háttar og einnig getur fólk fengið sér léttar veitingar. Svo verður boðið upp á rútuferðir frá Schenkerhöllinni í Laugardalshöll kl. 16:15 og til baka að leik loknum.

Miðasala verður í Schenkerhöllinni fram að leik í afgreiðslunni. Einnig er hægt má nálgast miða á miða hér.
Mætum svo öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!