Eins og komið hefur fram áður þá verður mikið um að vera hjá meistaraflokkum Hauka í handbolta í þessari viku, þegar bæði karla og kvenna liðin taka bæði í þátt í Final 4 Coca-Cola bikarsins. Ekki gekk það hjá stelpunum í gær þar sem þær töpuðu með einu marki eftir harða baráttu í tvíframlengdum leik.
Í dag, föstudag, fá strákarnir tækifæri til að bæta upp fyrir tap stelpnanna í gær þegar sannkallaður stórleikur er í undanúrslitum Coca – Cola bikar karla þegar karlalið Hauka leikur gegn Val í Laugardalshöll kl. 17:15. Þetta er í fjórða skiptið sem leikið er eftir nýju fyrirkomulagi þar sem undanúrslitin eru einnig leikin í Laugardalshöll og er þetta því í þriðja árið í röð sem Haukastrákar taka þátt í því. Áður var það þannig að aðeins úrslitaleikurinn var leikinn í höllinni en Haukamenn hafa unnið bikarinn 7 sinnum í 8 úrslitaleikjum.
Fyrst unnu Haukar bikarinn árið 1980 þegar að Haukar unnu KR 22 – 20 í úrslitaleik en þetta var aukaleikur um titilinn eftir að liðin skildu jöfn 18 – 18. Þessi leikur var jafn og spennandi allan leikinn en það var síðan á Haukar sem sigu framúr á endanum. Árni Hermannsson var hetja Hauka í leiknum með því að vera markahæstur með 6 mörk auk þess að eiga fjöldann allan af línusendingum á Ingimar Haraldsson sem skoraði 5 mörk. En þess má geta að Ingimar er faðir Matthíasar Árna fyrirliða Haukaliðsins í dag.
Haukar þurftu síðan að bíða lengi eftir næsta bikartitli en árið 1997 komust Haukar í bikarúrslit og mættu þar KA í hörkuleik. Haukar voru þar yfir í hálfleik 14 – 12 og náðu síðan að halda þeirri forustu út leikinn og unnu á endanum 26 – 24 og þar með annan bikarmeistaratitil Haukamanna en þess má geta að í undanúrslitum það árið unnu Haukar FH. Markahæstir Haukamanna í úrslitaleiknum voru Rúnar Sigtryggsson með 7 mörk og Gústaf Bjarnason skoraði 5 en í marki Hauka átti Bjarni Frostason stórleik. Í liði Hauka þetta árið var einnig annar faðir núverandi leikmanns en það er Petr Baumruk faðir Adam Hauks.
Næst komust Haukar í bikarúrslit árið 2001 þar sem Haukar mættu HK. Í leiknum voru Haukamenn með yfirhöndina allan leikinn og voru þeir yfir í hálfleik 14 – 9 og unnu að lokum sigur 24 – 21. Markahæstur Haukamanna í leiknum var Rúnar Sigtryggsson með 7 mörk en á eftir honum með 5 mörk komu Jón Karl Björnsson og Hauka Óskar Ármannsson.
Árið eftir komust Haukar aftur í bikarúrslit og að þessu sinni voru það Frammarar sem voru mótherjar Haukamanna. Sá leikur var spennandi fyrstu mínúturnar en um miðja fyrri hálfleik tóku Haukar við sér og leiddu í hálfleik 16 – 9 og unnu að lokum öruggan tíu marka sigur 30 – 20 þar sem Halldór Ingólfsson átti stórleik og skoraði 14 mörk. Þar með var fjórði bikarmeistaratitill Hauka staðreynd og það í jafnmörgum úrslitaleikjum.
Fyrsta og eina tap Haukamanna í bikarúrslitum kom árið 2006 en þá léku Haukamenn gegn liðið Stjörnunnar. Eftir jafnan og spennandi fyrri hálfleik voru Haukamenn yfir í hálfleik 11 – 9 en í seinni hálfleik skellti Roland Eradze markmaður Stjörnunnar í lás í markinu og tryggði sigur Stjörnunnar 24 – 20 en hann varði 27 skot í leiknum. Í leiknum var skotnýting og þar með markaskor Hauka skelfilegt og enduðu 4 leikmenn markahæsti með einungis 3 mörk.
Haukamenn komst ekki aftur í bikarúrslit fyrr en árið 2010 og þá var mótherjinn Valur. Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og voru Haukar yfir að honum loknum 9 – 8 og héldust liðin að í seinni hálfleik einnig. En um miðjan seinni hálfleik þegar staðan var 14 – 14 breyttu Haukamenn um vörn og unnu lokakaflann 9 – 1 og unnu leikinn að lokum 23 – 15. Í þessum leik var maður leiksins markvörður Hauka Birkir Ívar Guðmundsson en hann varði 23 skot en markahæstur Haukamanna í leiknum var Guðmundur Árni Ólafsson með 7 mörk og á eftir honum kom Björgvin Hólmgeirsson en Björgvin leikur í dag með ÍR sem spilar gegn Aftureldingu í hinum undanúrslitaleiknum. Meðal leikmanna Haukamanna í leiknum voru Heimir Óli Heimisson, Tjörvi Þorgeirsson og Elías Már Halldórsson.
Árið 2012 voru Haukamenn mættir aftur í Höllina en þá léku þeir gegn Fram. Haukamenn komu grimmir til leiks í þeim leik og áttu Frammarar eiginlega aldrei séns í Haukamenn í leiknum en Haukar voru 17 – 11 fyrir í hálfleik og unnu að lokum sigur 31 – 23. Markahæstir Haukamanna í þeim leik voru Sveinn Þorgeirsson og Stefán Rafn Sigurmannsson með 8 mörk en Aron Rafn Eðvarðsson átti flottan leik í markinu og varði 18 skot. Í liði Hauka þetta árið voru 4 leikmenn sem eru í leikmannahópi liðsins í dag þeir Tjörvi Þorgeirsson, Einar Pétur Pétursson, Heimir Óli Heimisson og fyrirliðinn Matthías Árni Ingimarsson.
Árið 2014 komust Haukar í fyrsta skipti í Höllina eftir að fyrirkomulaginu var breytt. Þá var leikið á föstudagskvöldi gegn nágrönnunum í FH en sá leikur var hörkuleikur þar sem FH var yfir í hálfleik 14 – 13 en í byrjun síðari hálfleiks tók Þórður Rafn Guðmundsson til sinna mála og skoraði 5 mörk í röð og kom Haukum í forusstu sem Haukar létu ekki af hendi og tryggðu sér sæti í úrslitum með sigri 30 – 28. Markahæstir Haukamanna í þeim leik voru Sigurbergur Sveinsson með 7 mörk og Árni Steinn Steinþórsson og Þórður Rafn með 6 mörk hvor, einnig var Gidreus Morkunas fínn í markinu og varði 10 skot og var með 34% markvörslu.
Daginn eftir var svo keppt til úrslita en þá var mótherjinn ÍR, leikurinn var hörku handbolta leikur þar sem vörn og markvarsla var í fyrirrúmi og lítið skorað. Leikurinn var jafn á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik og var það því vel við hæfi að staðan í hálfleik var 11 – 11. ÍR-ingar komu betur út í seinni hálfleik og komust í 15 – 13 en þá tók við 6 – 0 kafli hjá Haukamönnum og staðan orðin 19 – 15 Haukum í vil en ÍR-ingar neituðu að gefast upp og náðu að jafna í 21 – 21 þegar nokkrar mínútu voru eftir. Síðustu mínútur leiksins voru svo spennuþrungnar í meira lagi þar sem bæði lið fengi nokkur tækifæri til þess að skora en að lokum voru það Haukamenn sem náðu að skora síðasta mark leiksins og unnu leikinn 22 – 21. Markahæstir Haukamanna í þeim leik voru Sigurbergur Sveinsson með 6 mörk og Elías Már Halldórsson og Tjörvi Þorgeirsson með 4 mörk hvor og í marki Hauka átti Gidreus Morkunas stórleik og varði 18 skot og var með 47% markvörslu.
Í fyrra voru Haukamenn mættir aftur í höllina en þá mættu þeir ÍBV í undanúrslitum þjálfari ÍBV í leiknum var Gunnar Magnússon núverandi þjálfari Hauka auk þess sem að Hákon Daði Styrmisson lék með ÍBV í leiknum en hann kom til liðs við Hauka nú í janúar. Í leiknum var mikið jafnræði framan af en undir lok fyrri háflleik sigu Haukar aðeins frammúr og voru 14 – 10 yfir í hálfleik. Haukamenn byrjuðu svo seinni hálfleikinn af jafnmiklum krafti og þegar að seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan orðin 18 – 12. Þá slökknaði gjörsamlega á Haukaliðinu og skoruðu Eyjamenn 9 mörk í röð og eftirleikurinn auðveldur fyrir þá og endaði leikurinn með 2 marka sigri Eyjamanna 23 – 21. Markahæstur Haukamanna í leiknum var Janus Daði Smárason með 8 og var hann eini maðurinn sem var á lífi í sóknarleik Haukanna því næstu menn komu með 2 mörk, einnig var Giedrius frábær í markinu með 47% markvörslu. Þess má Hákon Daði Styrmisson núverandi leikmaður Hauka skoraði 4 mörk fyrir ÍBV í leiknum en ÍBV urðu svo bikarmeistarar daginn eftir.
Sagan er því þannig að karlalið Hauka hefur komist í bikarúrslit 8 sinnum og unnið bikarinn í 7 af þessum skiptum. Verði Haukamenn bikarmeistarar í ár jafna Haukar Val yfir þau lið sem oftast hefur orðið bikarmeistar í karlaflokki en nú eru Haukar með 7 titla og Valur með 8 titla. Næst síðasta skrefið í þeirri baráttu verður á dag þegar Haukamenn mæta Val kl. 17:15 í Laugardalshöllinni en upphitun er á Ásvöllum fyrir leik og fara rútur svo í Höllinn kl. 16:15 og taka þær fólk einnig til baka.
Mætum öll í rauðu og styðjum Hauka til sigurs í bikarnum. Áfram Haukar!