Haukarnir mættu Þór í þriðja sinn í 8 liða úrslitum Dominos deildarinnar í gærkvöldi og unnu sanngjarnan 9 stiga sigur, 84-75
Liðsheildin var frábær í gær og var alveg sama hver var að spila, allir spiluðu með miklu sjálfstrausti og voru ákveðnir bæði varnarlega og sóknarlega.
Lið varð fyrir enn einum skakkaföllunum í gær, en erlendi leikmaður liðsins, Brandon Mobley, var rekinn út úr húsi eftir einungis 8 min. leik. Strákarnir létu það ekki á sig fá heldur bættu í og spiluðu frábærlega þar sem barist var um alla bolta og öll fráköst.
Allt liðið var frábært í kvöld, hvort sem leikmenn spiluðu 2 min. eða 35 min., þá lögðu menn allt í sölurnar. Vörnin var frábær í gær, eins og í fyrri tveim leikjunum, þar sem Haukamenn náðu að hægja vel á erlendum leikmanni andstæðinganna og spilaði Hjálmar stórkostlega vörn á hann í leiknum. Kári Jóns kom aftur inní liðið, búinn að jafna sig eftir ljótt brot í fyrsta leik, og sýndi hvers hann er megnugur og spilaði stórkostlega í síðari hálfleik. Finnur Atli átti stjörnuleik á báðum endum og svo átti Haukur sinn besta sóknarleik í seríunni og er ljóst að hann er smátt og smátt að finna fjölina sína. Emil stjórnaði svo leiknum eins og sannur herforingi en allt liðið spilaði frábærlega.
Haukar geta með sigri í næsta leik komist í undanúrslit. Ljóst er að það á eftir að verða gríðarlega erfiður leikur á erfiðum útivelli. Við hvetjum allt Haukafólk til að gera sér ferð í Höfnina og hvetja liðið, það á það sannarlega skilið. Það er líka ljóst að það þarf að mæta snemma á völlinn og hvetjum við fólk til að leggja eigi síðar af stað úr bænum en kl. 18:00.